Öruggt hjá Tottenham | Southampton lagði West Ham

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane reimaði á sig skotskóna í dag.
Harry Kane reimaði á sig skotskóna í dag. EPA

Tottenham Hotspur vann þægilegan 3-0 sigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þá vann Southampton 3-2 útisigur á West Ham United.

Lucas Moura var allt í öllu í sóknarleik Tottenham í dag. Eftir tæplega hálftíma leik lagði hann boltann á Harry Kane sem kom lærisveinum Antonio Conte yfir. Var þetta níunda mark Kane á „Boxing Day“ eða annan í jólum eins og við köllum daginn einfaldlega.

Enginn leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur skorað oftar á öðrum degi jóla.

Aðeins tveimur mínútum eftir að Kane kom Tottenham yfir þá tvöfaldaði Moura sjálfur forystuna. Gestirnir fóru svo úr öskunni í eldinn aðeins þremur mínútum síðar þegar Wilfried Zaha fékk sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt.

Gestirnir voru því manni færri og tveimur mörkum undir er flautað var til hálfleiks. Síðari hálfleikur var heldur rólegri en Heung-Min Son gerði endanlega út um leikinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Staðan orðin 3-0 og reyndust það lokatölur.

Þá vann Southampton góðan 3-2 útisigur á West Ham United. Mohamed Elyounoussi kom gestunum yfir með eina marki fyrri hálfleiks. Michail Antonio jafnaði metin snemma í fyrri hálfleik en James Ward-Prowse kom Southampton yfir á nýjan leik með marki úr vítaspyrnu þegar rúm klukkustund var liðin.

Said Benrahma jafnaði metin fyrir West Ham skömmu síðar en Jan Bednarek reyndist hetja gestanna er hann stangaði aukaspyrnu Ward-Prowse í netið þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Lokatölur í Lundúnum 3-2 gestunum í vil og Southampton nú komið upp í 14. sæti með 20 stig. West Ham er í 6. sæti með 28 stig en Tottenham er sæti ofar með 29 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira