Erlent

Ómíkron úr einu prósenti í 73 á þremur vikum

Samúel Karl Ólason skrifar
Fyrsti Bandaríkjamaðurinn er talinn hafa dáið vegna ómíkron í gær. Þar var um að ræða óbólusettan mann frá Texas.
Fyrsti Bandaríkjamaðurinn er talinn hafa dáið vegna ómíkron í gær. Þar var um að ræða óbólusettan mann frá Texas. AP/Marta Lavandier

73 prósent þeirra Bandaríkjamanna sem smituðust af Covid-19 í síðustu viku, smituðust af ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar. Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) segir hlutfall ómíkron-afbrigðisins af smitum vikunnar vera sex sinnum hærra en í vikunni á undan.

Hlutfallið er hærra í sumum héruðum Bandaríkjanna. Í New York er það til að mynda talið níutíu prósent eða jafnvel hærra, samkvæmt AP fréttaveitunni. Þann 1. desember var hlutfallið eitt prósent í Bandaríkjunum.

Fréttaveitan hefur eftir Dr. Rochelle Walensky, yfirmanni CDC, að þessi vöxtur afbrigðisins í Bandaríkjunum endurspegli reynsluna í öðrum löndum. Þetta sé alvarlegt en komi ekki á óvart.

Fyrsti Bandaríkjamaðurinn er talinn hafa dáið vegna ómíkron í gær. Þar var um að ræða óbólusettan mann frá Texas.

Frá því afbrigðið greindist í Suður-Afríku í síðasta mánuðu hefur það stungið upp kollinum í um níutíu ríkjum. Vísbendingar eru um að afbrigðið valdi vægari veikindum en delta-afbrigðið sem hefur verið ráðandi undanfarna mánuði. Þá er algengt að bólusett fólk og þeir sem hafi smitast áður smitist en það fólk er þó talið betur statt gagnvart alvarlegum veikindum en óbólusettir.

Sjá einnig: WHO hvetur fólk um allan heim til að aflýsa eða fresta jólaboðum

Víða hefur verið gripið til samkomutakmarkana í heiminum á undanförnum dögum. Reuters fréttaveitan segir ráðamenn um allan heim á tánum vegna útbreiðslu ómíkron og þeirra áhrifa sem afbrigðið geti haft á hagkerfi heimsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×