Íslenski boltinn

Bræður börðust: „Þetta er „vel­kominn í full­orðins” frá stóra til litla,“ segir mamman

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tryggvi Hrafn Haraldsson lét Hákon Andra, yngri bróðir sinn, finna fyrir því um helgina.
Tryggvi Hrafn Haraldsson lét Hákon Andra, yngri bróðir sinn, finna fyrir því um helgina. ÍATV/Bára Dröfn

ÍA gerði sér lítið fyrir og lagði Val er liðin mættust í æfingaleik um helgina. Það sem vakti þó mesta athygli var þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson tæklaði yngri bróðir sinn í leiknum. Líkt og eldri bróðir sæmir varð að sýna hver ræður þó ÍA hafi farið með sigur af hólmi.

ÍA og Valur hafa bæði hafið undirbúning sinn fyrir komandi tímabil í efstu deild karla í knattspyrnu. Tímabilið hefst fyrr en vanalegt er og því þurfa liðin að hefja alvöru undirbúning sem fyrst.

Skagamenn gerðu sér lítið fyrir og fóru með 4-2 sigur af hólmi er liðin mættust í Akraneshöllinni um liðna helgi. Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði síðara mark Vals í leiknum og átti eina groddaralega tæklingu sem var tekin fyrir á Twitter-síðu ÍA TV.

Tryggvi Hrafn tæklar þá hinn 16 ára gamla Hauk Andra Haraldsson. Það vill svo skemmtilega til að þeir eru bræður.

„Tryggvi tekur hann niður hérna og glottir svo við tönn. Aðeins að láta litla bróður finna fyrir sér,“ segir í lýsingu ÍATV en Tryggvi Hrafn fékk gult spjald fyrir tæklinguna. Þá var móðir þeirra bræðra beðin um álit.

„Þetta er „velkominn í fullorðins” frá stóra til litla. Báðir spenntir að mætast aftur,“ segir hún og ljóst að bræðurnir standa enn þétt við bakið á hvor öðrum þó sá eldri hafi valið heldur hressan máta til að bjóða þann yngri velkominn í meistaraflokk.

Haukur Andri kvartar eflaust lítið ef hann heldur áfram að hafa betur en það verður forvitnilegt að sjá hvort bræður muni berjast næsta sumar.

Hér að neðan má sjá það helsta úr leik ÍA og Vals en það var nóg um að vera. Haukur Páll Sigurðsson sá rautt, vítaspyrnur og fleira til.

Valur endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildar karla síðasta sumar á meðan ÍA endaði í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×