Enski boltinn

Við gerðum of mörg mis­tök

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tuchel telur einstaklingsmistök vera kosta Chelsea leik eftir leik.
Tuchel telur einstaklingsmistök vera kosta Chelsea leik eftir leik. EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA

Thomas Tuchel var sár og svekktur er hann ræddi við fjölmiðla eftir 3-2 tap sinna manna gegn West Ham United í ensku úrvalsdeildinni í dag. Honum fannst frammistaðan þó ekki alslæm.

„Mér fannst við ekki spila það illa í leiknum, frammistaðan var allt í lagi. Það er hægt að vinna leiki með frammistöðu sem þessari.“

„Það er erfitt að spila hér, við gerðum of mörg einstaklingsmistök. Við gerðum þau líka gegn Manchester United og Watford þar sem okkur var refsað. Ef þú vilt ná árangri á þessu getustigi þá þarftu að halda mistökum í lágmarki. Við töluðum um það fyrir leik en það hjálpaði augljóslega ekki í dag.“

Varðandi vítaspyrnuna klaufalegu

„Sendingin (frá Jorginho) til baka er ekki besta ákvörðunin sem hægt var að taka þar, skipulagið okkar er ekki það besta. Við getum bjargað okkur fyrir horn en ákvörðunin hjá Edu (Mendy, markverði Chelsea) var ekki heldur sú besta.

„Við sköpuðum mikið af hálf-færum, áttum margar snertingar inn í vítateig West Ham en stundum þarf smá heppni. Skot sem fer í varnarmann eða bolti sem dettur rétt fyrir þig. Þriðja mark þeirra er skrýtið og einu tvö alvöru færin þeirra í fyrri hálfleik komu eftir mistök frá okkur.“

„Við gátum ekki klárað leikinn þrátt fyrir að fá betri færi en þeir. Við þurfum að vera miskunnarlausari fyrir framan mark andstæðinganna. Við áttum einnig erfitt uppdráttar varnarlega í ákveðnum aðstæðum.“

„Þó hvert tap sé ákveðið högg mun það ekki halda aftur af okkur. Mun ekki aftra okkur í að halda áfram og gera sömu kröfur og við höfum gert, við þurfum að spila betur og af meira öryggi. Þurfum einnig að fækka mistökum á ögurstundum,“ sagði Tuchel að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×