Enski boltinn

Liverpool með brasilískan heimsmeistara í þjálfarateyminu sínu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frægasta myndin af Taffarel sem fagnar hér eftir að Ítalinn Roberto Baggio klikkaði á víti í vítakeppni úrslitaleik HM 1994 en með því tryggðu Brasilíumenn sér heimsmeistaratitilinn.
Frægasta myndin af Taffarel sem fagnar hér eftir að Ítalinn Roberto Baggio klikkaði á víti í vítakeppni úrslitaleik HM 1994 en með því tryggðu Brasilíumenn sér heimsmeistaratitilinn. Getty/Shaun Botterill

Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hefur bætti við brasilískri goðsögn inn í þjálfarateymi sitt.

Claudio Taffarel er orðinn markamannsþjálfari hjá félaginu en aðalmarkvörður Liverpool liðsins er auðvitað brasilíski landsliðsmarkvörðurinn Alisson Becker.

Alisson og hann eru vanir að vinna saman því Taffarel er einnig markmannsþjálfari hjá brasilíska landsliðinu.

Það er spurning hvort að þessi ráðning gefi Alisson eitthvað forskot í baráttunni um sæti í byrjunarliði Brasilíu en þar er hann auðvitað í samkeppni við Ederson, hinn frábæra markvörð Manchester City.

„Við ræddum við Alisson því tveir af bestu markvörðum heimsins eru Brasilíumenn og við fundum út lausn svo við gátum fengið Taffarel til okkar. Það er góð viðbót við þjálfarateymið okkar,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.

„Við teljum að hann geti gefið okkur annað sjónarhorn,“ sagði Klopp.

Taffarel hættir ekki hjá brasilíska landsliðinu og það eru því löng ferðalög framundan hjá honum.

„Við viljum vera góður skóli fyrir markverði í heimsfótboltanum og þess vegna erum við að ná í þriðja markmannsþjálfarann sem er mjög reyndur,“ sagði Klopp.

„Í sambandi við markverðina þá erum við með Alisson Becker, sem er að okkar mati besti markvörður heims. Við erum líka með Caoimhin Kelleher sem við teljum að sé frábær leikmaður líka. Við erum líka með Adrian, Marcelo Pitaluga og Harvey Davies. Við erum með fimm markverði í á mismunandi aldri sem er frábært en við viljum fá meira frá þessum strákum,“ sagði Klopp.

Taffarel er nú 55 ára gamall og var markvörður brasilíska landsliðsins þegar liðið var heimsmeistari 1994 og komst í úrslitaleikinn fjórum árum síða.

Brasilíumenn unnu 1994 titilinn í vítakeppni en það var þá fyrsti heimsmeistaratitill Brassa í 24 ár.

Tveir markvarðarþjálfarar voru fyrir hjá Liverpool eða þeir John Achterberg og Jack Robinson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×