Enski boltinn

Nýr stjóri Man. United vill þungarokks fótbolta og hatar Tiki-taka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ralf Rangnick hefur sterkar skoðanir á fótboltanum og vill hafa skýrt plan hjá sínum liðum.
Ralf Rangnick hefur sterkar skoðanir á fótboltanum og vill hafa skýrt plan hjá sínum liðum. Getty/ Jan Woitas

Knattspyrnuáhugafólk og þá sérstaklega stuðningsmenn Manchester United bíða nú eftir því hvaða áhrif nýr knattspyrnustjóri Manchester United muni hafa á félagið.

Sky Sports fór yfir það sem von er á frá liði United undir stjórn Ralf Rangnick og fékk þá Jamie Carragher og Roy Keane til að segja sina skoðun á þýska stjóranum.

Það var boðið upp á fróðlega samantekt á tölfræði RB Leipzig liðsins undir stjórn Ralf Rangnick 2018-19 og svo tölfræði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Þar kom í ljós að RB Leipzig liðið var við toppinn í fjölda tölfræðiþátta sem snúa að pressu og varnarleik en Manchester United liðið ef aftur á móti við botninn í sömu tölfræðiþáttum í vetur.

Grafið var líka upp viðtal við Ralf Rangnick frá þjálfararáðstefnu þar sem hann útskýrði fótboltafræðin sín.

Hann talaði þar um fimm mismunandi aðstæður í fótboltaleikjum sem ráða úrslitum í leikjum. Hann er á því að liðið hans þurfi að vera með það á hreinu hvað á að gera.

Það er það hvað gerist þegar liðið er með boltann (1), þegar liðið er ekki með boltann (2), þegar liðið vinnur boltann (3), þegar liðið tapar boltanum (4) og þegar það eru föst leikatriði.

„Okkar hugmyndafræði er skýr og hún er mjög lík þeirri hjá þjálfaravini mínum Jürgen Klopp. Okkar fótbolti er þungarokksfótbolti og rokk og ról en ekki hægur vals. Ég hata eintómar kassasendingar og sendingar til baka. Það er ekkert vit í því að hanga á boltanum,“ segir Ralf Rangnick sem er greinilega ekki hrifinn af Tiki-taka fótboltanum.

Það má sjá hann fara yfir hugmyndafræði sína hér fyrir ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.