Íslenski boltinn

Þunga­vigtin um Arnór Smára: „Hann vann ekki fyrir einni krónu af þeim peningum síðasta sumar“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rikki G spurði þá Kristján Óla og Mikael um endurkomu Arnórs Smárasonar í íslenska boltann.
Rikki G spurði þá Kristján Óla og Mikael um endurkomu Arnórs Smárasonar í íslenska boltann. Þungavigtin

Í síðasta þætti Þungavigtarinnar velti Ríkharð Óskar Guðnason, Rikki G, þeirri spurningu hvort kaup Vals á Arnóri Smárasyni væru einhver verstu kaup síðari ára. Að venju voru þeir Kristján Óli Sigurðsson og Mikael Nikulásson með Rikka.

„Ég kíkti aðeins á Víking – Val og velti fyrir mér hvort Arnór Smárason sé að spila með blautt sement í skónum sínum því maðurinn haggast ekki. Hann er ekki í góðu standi og því spyr ég: Er Arnór Smárason pund fyrir pund ein verstu og misheppnuðustu kaup í íslenskum fótbolta, það er að segja í deild,“ spurði Ríkharð Óskar.

„Frábær spurning. Hann kom í fyrra og spilaði nánast ekki neitt. Hann var ekki að koma heim til að fá 200 þúsund krónur á mánuði og græna kortið frá Val. Ég get alveg lofað þér því. Áður en hann kom í Val var hann eiginlega ekkert búinn að spila í tvö ár þó hann sé ekki það gamall, fæddur 1989 eða 1988,“ svaraði Kristján Óli um hæl.

„Hann haggaðist ekki, hann hreyfðist ekki,“ bætti Ríkharð Óskar við en samkvæmt honum lék Arnór á miðri miðju Valsmanna í leiknum gegn Íslandsmeisturum Víkings.

„Ég held að Stjáni fari alveg með rétt mál að tékkinn hans sé örugglega hærri en 200 þúsund krónur á mánuði, örugglega mun hærri. Hann vann ekki fyrir einni krónu af þeim peningum síðasta sumar. Ekki er þetta þá að byrja vel núna en eigum við ekki að gefa honum smá breik, það er nú bara nóvember,“ sagði Mikael Nikulásson að endingu.

Þáttinn í heild sem og aðra þætti Þungavigtarinnar má finna á tal.is/vigtin.

Arnór Smárason (til vinstri) í leik með Val gegn Dinamo Zagreb síðasta sumar.Vísir/Bára Dröfn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×