Enski boltinn

Arteta segist vilja fá Wenger aftur til Arsenal

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arteta og Wenger saman á æfingasvæðinu þegar Arteta var enn leikmaður.
Arteta og Wenger saman á æfingasvæðinu þegar Arteta var enn leikmaður. Stuart MacFarlane/Arsenal FC via Getty Image

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segist vilja sjá Arsene Wenger, fyrrverandi stjóra félagsins, snúa aftur til Arsenal í einhverri mynd í framtíðinni. Hann segist enn fremur vera búinn að ræða við Wenger um mögulega endurkomu.

Hinn 72 ára Wenger stýrði Arsenal í 22 ár og vann með liðinu ensku úrvalsdeildina þrisvar og FA bikarinn sjö sinnum, en starfar nú fyrir Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA. Arteta spilaði í fimm ár undir stjórn Wenger hjá Arsenal frá 2011-2016.

„Við yrðum hæstánægðir með að hafa hann nær félaginu,“ sagði Arteta. „Ég held að hann hefði mjög gaman að því að sjá andrúmsloftið sem hann getur skapað í kringum sig þegar hann er á svæðinu, því hann nýtur mikillar virðingar og menn líta upp til hans.“

Arteta tók við Arsenal af Unai Emery í lok árs 2019, rúmu einu og hálfu ári eftir brotthvarf Wenger. Undir hans stjórn vann liðið FA bikarinn árið 2020, en eftir að hafa lent í áttunda sæti annað tímabilið í röð á seinasta tímabili mistókst liðinu að komast í Evrópukeppni í fyrsta skipti í 25 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×