Þetta fullyrðir meðal annars breska ríkisútvarpið, BBC, í dag og segist hafa heimildir fyrir því úr innsta hring Zidane.
Ole Gunnar Solskjær var rekinn úr starfi hjá United í gær eftir 4-1 tap gegn Watford. Norðmaðurinn hefur verið valtur í sessi síðustu vikur og er Zidane á meðal þeirra sem helst hafa verið nefndir sem hugsanlegur arftaki hans.
Samkvæmt heimildum BBC hefur Zidane ekki áhuga á að taka við á Old Trafford í augnablikinu. Hann hefur verið orðaður við franska landsliðið og PSG, og myndi frekar vilja taka við öðru þeirra ef sá möguleiki byðist í náinni framtíð.
Mauricio Pochettino, sem oft hefur verið orðaður við United í gegnum tíðina, er núverandi stjóri PSG. Samkvæmt frétt BBC hafa forráðamenn franska félagsins fulla trú á Pochettino og ekki stendur til að skipta honum út.
Zidane hefur verið án starfs síðan að hann hætti hjá Real Madrid í maí en það er eina liðið sem hann hefur stýrt sem þjálfari – fyrst árin 2016-2018 og svo aftur frá 2019-2021.
Frakkinn vann Meistaradeild Evrópu þrjú ár í röð á fyrri þremur tímabilum sínum hjá Real og stýrði Real til spænska meistaratitilsins 2017 og 2020.