Enski boltinn

Solskjær látinn fara frá Man. United

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Solskjær stýrði Manchester United í síðasta sinn í gær, í 4-1 tapi gegn Watford.
Solskjær stýrði Manchester United í síðasta sinn í gær, í 4-1 tapi gegn Watford. Charlie Crowhurst/Getty

Ole Gunnar Solskjær hefur verið leystur frá störfum sínum sem knattspyrnustjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni. Þetta staðfestir félagið á samfélagsmiðlum og á vefsíðu sinni.

Í tilkynningu á vef félagsins er farið fögrum orðum um Solskjær, sem er í miklum metum meðal stuðningsmanna félagsins eftir tíma sinn sem leikmaður hjá félaginu, og sagt að ákvörðunin hafi verið erfið.

Solskjær hefur stýrt liðinu frá því í desember 2018. Síðasti leikur félagsins undir hans stjórn var 4-1 tap á útivelli gegn Watford í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Þó að undanfarnar vikur hafi verið vonbrigði ættu þær ekki að skyggja á alla vinnu síðustu þriggja ára,“ segir í tilkynningunni.

„Ole kveður með okkar innilegustu þakkir fyrir störf sín sem knattspyrnustjóri og okkar bestu óskir í framhaldinu. Staða hans í sögu félagsins verður ávallt trygg, ekki bara vegna sögu hans sem leikmanns, heldur frábærs manns og knattspyrnustjóra sem gaf okkur mörg frábær augnablik. Hann verður ávallt velkominn á Old Trafford sem hluti af Manchester United-fjölskyldunni.“

Michael Carrick, sem var hluti af þjálfarateymi Solskjær, mun taka við stjórn liðsins í næstu leikjum. Samkvæmt tilkynningunni leitar félagið nú að bráðabirgðastjóra út tímabilið.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.