Erlent

Áhafnir Cathay Pacific sæta ströngum sóttvarnatakmörkunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Starfsmenn Cathay Pacific sæta verulegum takmörkunum utan vinnutíma.
Starfsmenn Cathay Pacific sæta verulegum takmörkunum utan vinnutíma. epa/Jerome Favre

Stjórnendur flugfélagsins Cathay Pacific, sem er starfrækt frá Hong Kong, hafa kynnt nýjar og strangar reglur um sóttkví áhafna sem fela meðal annars í sér að eftir ferðir erlendis verða starfsmenn að einangra sig á heimili sínu í þrjá daga.

Þá er þeim skylt að forðast öll ónauðsynleg samskipti í 21 dag.

Sóttvarnareglur í Hong Kong eru almennt mjög strangar. Þar verða allir sem koma til borgarinnar, með fáeinum undantekningum, að sæta hótelsóttkví í 14 til 21 dag.

Samkvæmt nýjum reglum Cathay Pacific verða þeir áhafnarmeðlimir sem hafa haft næturdvöl erlendis hins vegar að einangra sig í þrjá daga á heimili sínu og mega ekki fara út nema til að versla í matinn, sækja læknisþjónustu eða fara í Covid-próf.

Þetta má aðeins taka tvær klukkustundir á dag, að hámarki, og þá er starfsmönnum flugfélagsins gert að takmarka öll samskipti í 18 daga til viðbótar, auk þess sem þeir þurfa að taka Covid-próf á hverjum degi.

Reglur félagsins um starfsmenn þegar þeir eru við störf erlendis eru ekki síður strangar en þar verður áhöfnin að fara saman á hótel um leið og lent er og þá mega starfsmenn ekki yfirgefa hótelherbergi sín allan tímann sem þeir dvelja erlendis, ekki einu sinni til að borða.

BBC greindi frá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×