Erlent

Ellefu ára fangelsi yfir bandarískum blaðamanni í Búrma

Kjartan Kjartansson skrifar
Danny Fenster er meðal annars sagður hafa starfað fyrir vefmiðil sem er gagnrýninn á herforingjastjórnina í Búrma.
Danny Fenster er meðal annars sagður hafa starfað fyrir vefmiðil sem er gagnrýninn á herforingjastjórnina í Búrma. AP

Herdómstóll í Búrma dæmdi Danny Fenster, bandarískan blaðamann, í ellefu ára fangelsi fyrir undirróður gegn hernum, brot á innflytjendalögum og samkomutakmörkunum í dag. Hann gæti hlotið enn þyngri dóm verði hann sakfelldur fyrir uppreisnaráróður og hryðjuverk.

Fenster var ritstjóri vefsíðunnar Frontier Mjanmar en hann var handtekinn á alþjóðaflugvellinum í Yangon í maí, einn tuga blaðamanna sem herinn hefur handtekið frá því að hann rændi völdum í febrúar.

Bandaríkjastjórn hefur krafist þess að herforingjastjórnin í Búrma sleppi Fenster en hún hefur fram að þessu neitað því. Phil Robertson, aðstoðarforstöðumaður Mannréttindavaktarinnar í Asíu, segir dóminn yfir Fenster skopstælingu á réttlæti fyrir sýndardómstól. Honum sé ætlað að ógna öðrum blaðamönnum í Búrma sem er einnig þekkt sem Mjanmar.Fyrr í vikunni var Fenster ákærður fyrir enn alvarlegri brot: uppreisnaráróður gegn herforingjastjórninni og hryðjuverk. Réttað verður yfir honum vegna þeirra ákæra í næstu viku en Fenster gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur.

Hátt á tólfta hundrað manna hafa verið drepnir frá því að herinn rændi völdum í Búrma og á áttunda þúsund handteknir, ákærðir eða dæmdir fyrir að taka þátt í mótmælum. Vitað er til þess að um áttatíu blaðamenn hafi verið handteknir fyrir fréttaflutning sinn en um fimmtíu þeirra séu enn í haldi. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.