Enski boltinn

Segja að það hafi tekið Sir Alex tuttugu sekúndur að sannfæra Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Sir Alex Ferguson saman þegar Ronaldo var enn ungur og áður en hann fór frá Manchester United til Real Madrid.
Cristiano Ronaldo og Sir Alex Ferguson saman þegar Ronaldo var enn ungur og áður en hann fór frá Manchester United til Real Madrid. Getty/Denis Doyle/

Það brá mörgum í haust þegar fréttist af því að Manchester United goðsögnin Cristiano Ronaldo væri að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina en ætlaði að semja við Manchester City af öllum liðum.

Ekkert varð þó af því og á endanum samdi Ronaldo við Manchester United og snéri því aftur á Old Trafford eftir tólf ára fjarveru.

Félagið seldi hann fyrir metfé til Real Madrid árið 2009 og þar átti Ronaldo sín bestu ár. Ronaldo er orðinn 36 ára gamall en hefur litlu gleymt og er búinn að skora 9 mörk í 12 leikjum í öllum keppnum á þessari fyrstu leiktíð.

Ronaldo hefur ítrekað bjargað United liðinu í Meistaradeildinni og þá hefur hann varið kosinn leikmaður mánaðarins hjá félaginu fyrstu tvo mánuði tímabilsins.

Næst á dagskrá er leikur á móti Manchester City um helgina og í upphitun fyrir þann leik hafa enskir blaðamenn verið að forvitnast meira um það sem gekk á bak við tjöldin þegar Ronaldo var næstum því farinn í Manchester City.

Áður hafði verið fjallað um það að Sir Alex Ferguson hafi verið í bandi við Portúgalann og sannfært hann um að koma frekar aftur til Manchester United.

Samband Sir Alex og Ronaldo hefur alltaf verið frábært og Cristiano hefur talað um að Ferguson hafi verið eins og faðir fyrir sig. Undir stjórn Ferguson þá blómstraði Ronaldo og breyttist úr óþekktum unglingi í besta fótboltamann heims. Ronaldo spilaði í sex tímabil með Manchester United eða þegar hann var 18 ára til að hann varð 24 ára.

Daily Mirror slær því upp á forsíðu sinni að það hafi aðeins tekið Sir Alex tuttugu sekúndur að sannfæra Ronaldo í umræddu símtali. Skotinn á bara að hafa sagt þrjú orð við Ronaldo. Þau orð voru: „Ekki fara í City“ eða „don't join City“ á enskunni. Fergie á síðan að hafa lagt á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×