Erlent

Hjartavöðvabólga í kjölfar bólusetninga afar fátíð og yfirleitt mild

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Drengir eru líklegri en stúlkur til að greinast með hjartavöðvabólgu.
Drengir eru líklegri en stúlkur til að greinast með hjartavöðvabólgu.

Nýjustu rannsóknir staðfesta það að hjartavöðvabólga hjá ungmennum í kjölfar bólusetninga gegn Covid-19 er næstum alltaf mild og gengur til baka á skömmum tíma. Áhættan af því að fá Covid-19 er mun meiri.

Frá þessu greinir New York Times og hefur eftir sérfræðingum sem þekkja til rannsóknanna. 

Tölfræðin hljómar ógnvekjandi; fyrir einstakling á aldrinum 18 til 39 ára er áhættan á því að fá hjartavöðvabólgu allt að 37 sinnum hærri eftir tvo skammta af bóluefninu frá Moderna. Þá er áhættan hjá aldurshópnum 12 til 39 ára allt að nítjánföld eftir tvo skammta af Pfizer.

Raunverulegur fjöldi er hins vegar afar lítill.

Ungir karlar eru líklegri en aðrir til að fá hjartavöðvabólgu í kjölfar bólusetninga en í Bandaríkjunum hafa um það bil 11 af hverjum 100 þúsund bólusettum körlum á aldrinum 16 til 29 ára verið greindir með hjartavöðvabólgu í kjölfar bólusetningar.

Áhættan lækkar með aldrinum og þá er talið ólíklegt að aukaverkunin eigi eftir að valda vandræðum þegar börn á aldrinum 5 til 11 ára verða bólusett, þar sem hjartavöðvabólga er fátíð fyrir kynþroskaaldur.

Hjartavöðvabólga kemur oftast til samhliða vírus- eða bakteríusýkingu og veldur einkennum á borð við hraðan eða óreglulegan hjartslátt, brjóstverki og mæði. Árlega greinast 10 til 20 af hverjum 100 þúsund með hjartavöðvabólgu á heimsvísu en talið er að fleiri sýni væg einkenni og séu aldrei greindir.

Frá því að kórónuveirufaraldurinn braust út hafa tugþúsundir barna í Bandaríkjunum verið lögð inn á sjúkrahús með Covid-19 og 657 dáið. Þá hefur fjöldi barna glímt við langvarandi Covid, það er að segja einkenni eftir að sýking er yfirstaðin.

Að minnsta kosti 5.200 börn hafa einnig greinst með fjölkerfa bólgusjúkdóm vegna Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×