Þrátt fyrir það er forsetinn fyrrverandi að nota bæði Facebook og Save America til að fjármagna framboð sitt með krókaleiðum. Krókaleiðar þessar byggja þar að auki á lygum Trumps og bandamanna hans um kosningasvik og spillingu og það að Trump sé réttmætur forseti Bandaríkjanna.
Samkvæmt frétt Washington Post hefur Save America varið meira en hundrað þúsund dölum á viku að undanförnu í auglýsingar á Facebook. Margar þessara auglýsinga snúast um að biðja stuðningsmenn Trumps um peninga til að berjast gegn þeirri spillingu og kosningasvikum sem Trump segir sig hafa kostað sigur í forsetakosningunum í fyrra.
Talsmaður Facebook sagði þessar auglýsingar leyfðar því hann væri ekki að birta þær persónulega og þær.
Save America kostar auglýsingarnar en allar fjárveitingar fara í aðra sjóði sem Trump er frjálst að nota peningana að vild. Það er þar til hann tilkynnir nýtt framboð, ef hann gerir það, en þá þarf hann aftur að stofna nýja sjóði.
Ekki vitað hve stórir sjóðirnir eru
Eins og fram kemur í frétt Washington Post segir að ekki liggi fyrir hve miklum peningum Trump sitji á. Hann þurfi einungis að gera grein fyrir sjóðum sínum tvisvar sinnum á ári. Síðast gerði hann það í júlí og þá átti hann 9,5 milljarða króna og það bara í sjóði Save America. Hann á aðra sjóði.
Sjá einnig: Hefur safnað 9,5 milljörðum króna í sjóð sinn
Þeim fjármunum safnaði hann einnig á grunni ósanninda um forsetakosningarnar sem hann tapaði fyrir Joe Biden.
WP hefur þó eftir ráðgjöfum Trumps að hann hafi ítrekað verið að safna meira en milljón dölum á viku og allt að tveimur milljónum. Ein milljón dala samsvarar um 130 milljónum króna.
Ætlar ekkert að tilkynna strax
Repúblikanar sem rætt var við en vildu ekki koma fram undir nafni segja Trump vera sjúga til sín peninga frá öðrum málefnum flokksins í aðdraganda þingkosninga á næsta ári. Þá hafi Trump varið litlu sem engu af eigin peningum í að reyna að færa sönnur fyrir því að umfangsmikið kosningasvindl hafi kostað hann sigur í fyrra.
Aðrir bandamenn hans hafa reynt að gera það en án nokkurs árangurs.
Sjá einnig: Umdeild endurskoðun í Arizona staðfestir sigur Bidens
Trump var spurður að því í september hvort hann ætli að bjóða sig fram aftur í kosningunum 2024. Þá sagðist hann ekki mega tala um það, vegna laga um fjármögnun framboða. Viðmælendur Washington Post segja Trump ekki ætla að staðfesta eitt né neitt á næstu mánuðum.
Ef hann tilkynni svo annað framboð muni hann færa peninga sína í nýja óháða sjóði svo hægt sé að nota þá til að styðja framboð hans.