Enski boltinn

Rooney sakar leikmenn United um leti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney fannst erfitt að horfa á leik Manchester United og Liverpool.
Wayne Rooney fannst erfitt að horfa á leik Manchester United og Liverpool. getty/Nick Taylor

Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu Manchester United, sakar leikmenn liðsins um að leggja sig ekki nógu mikið fram.

Illa hefur gengið hjá United að undanförnu og á sunnudaginn tapaði liðið 0-5 fyrir Liverpool á Old Trafford. Knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær hefur fengið mikla gagnrýni en Rooney segir að leikmenn United beri líka mikla ábyrgð á genginu. Hann var ekki hrifinn af frammistöðu þeirra gegn Liverpool.

„Leikmennirnir verða að líta í eigin barm. Það er of auðvelt að klína öllu á stjórann þegar þessir leikmenn fá mjög vel borgað til að vinna vinnuna sína en gera það ekki nógu vel,“ sagði Rooney sem er knattspyrnustjóri Derby County, botnliðs ensku B-deildarinnar.

„Það er mikil ábyrgð á herðum þessara leikmanna. Þetta eru landsliðsmenn, leikmenn í heimsklassa og félag eins og Manchester United þarf meira. Þessum leikmönnum á að sárna þegar liðið tapar.“

Rooney segir að leikmenn United verði að sýna meiri vilja og dugnað í leikjum en þeir hafa gert að undanförnu.

„Það eru miklar kröfur hjá þessu félagi og mikil pressa. Ég sé of marga leikmenn sem eru ekki tilbúnir að hlaupa til baka, verjast og leggja allt í þetta og það er ekki boðlegt. Er það sök stjórans eða leikmannanna? Ég veit það ekki,“ sagði Rooney.

Hann segir að munurinn á United og Liverpool liggi ekki síst í vinnuframlagi leikmanna liðanna.

„Það var ekki auðvelt að horfa á leikinn gegn Liverpool. Þeir eru með stórkostlegt lið, svipað og United þegar kemur að heimsklassa leikmönnum og eru sennilega með besta leikmann heims um þessar mundir, Mohamed Salah. Eini munurinn er að þeir leggja mikið á sig þegar þeir eru ekki með boltann,“ sagði Rooney.

Næsti leikur United er gegn Tottenham á morgun. United er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×