Enski boltinn

Segir New­cast­le ekki geta barist við Real Madríd og Barcelona um leik­menn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jonathan Woodgate spilaði með Newcastle United frá 2003 til 2004.
Jonathan Woodgate spilaði með Newcastle United frá 2003 til 2004. Newcastle United

Jonathan Woodgate, fyrrum leikmaður Newcastle United, segir stuðningsfólk félagsins lifa í draumi ef það heldur að félagið geti barist við Real Madríd og Barcelona um leikmenn á borð við Kylian Mbappé.

Félög „geta ekki bara keypt sér árangur,“ segir Woodgate í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC. Hann nefnir að nú þegar sé erfitt að fá leikmenn til Newcastle sem er staðsett í norðurhluta Englands.

Nýir eigendur Newcastle eru þeir ríkustu í heimsfótbolta og er búist við því að félagið fylgi í fótspor Chelsea og Manchester City. Að það geri sig gildandi í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar áður en langt um líður.

„Eigendurnir þurfa að bæta innviði félagsins, það þarf að byggja frá grunni.“

„Ef leikmaður hefur einstaka hæfileika þá er hann til Real Madríd, Barcelona eða Manchester United. Hann fer ekki upp götuna til Newcastle, með fullri virðingu. Það er nægilega erfitt að á leikmenn til að spila á þessu svæði,“ bætti miðvörðurinn við en hann lék einnig með Real Madríd á ferli sínum.

„Allir bestu leikmennirnir eiga pening, þeir vilja vinan bikara, þeir vilja spila til úrslita í Evrópukeppnum, þeir vilja komast á heimsmeistaramót, þeir vilja ekki koma til Newcastle. Aftur segi ég þetta með fullri virðingu en ég hef rétt fyrir mér. Alan Shearer var heimsklassa leikmaður en hann skrifaði undir hjá Newcastle því hann er frá Newcastle. Hann vildi upplifa æskudrauminn.“

„Að stuðningsfólk Newcastle haldi að það geit fengið Kylian Mbappé og alla þessa toppleikmenn, þau lifa í draumi. Það þarf að byggja félagið upp fyrst. Það verður ekki auðvelt og þú getur ekki keypt árangur, það virkar ekki þannig í þessari deild,“ sagði Woodgate að endingu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.