Þúsundasti leikur Bruce og fyrsti leikur nýrra eigenda endaði með tapi

Steve Bruce vill líklega gleyma þúsundasta leiknum sínum fljótlega.
Steve Bruce vill líklega gleyma þúsundasta leiknum sínum fljótlega. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Steve Bruce stýrði sínum þúsundasta leik á ferlinum þegar að Newcastle tók á móti Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Eftir frábæra byrjun tóku gestirnir í Tottenham völdin og unnu að lokum góðan 3-2 sigur.

Callum Wilson kom heimamönnum í Newcastle yfir strax á annarri mínútu eftir stoðsendingu frá Javier Manquillo, áður en Tanguy Ndombele jafnaði metin fyrir gestina fimmtán mínútum síðar.

Harry Kane kom Tottenham yfir á 22. mínútu eftir stoðsendingu frá Pierre-Emile Højbjerg, en þetta var fyrsta mark ensku markamaskínunnar á tímabilinu.

Eftir rétt rúmlega 40 mínútna leik átti sér stað óhugnalegt atvik þegar að gestirnir bjuggu sig undir það að taka hornspyrnu. Sergio Reguilon hljóp þá að Andre Marriner, dómara leiksins, og benti honum upp í stúku.

Í kjölfarið tóku læknar beggja liða sprettinn í átt að stúkunni og skömmu síðar var tekin ákvörðun um að senda leikmenn inn í klefa.

Stuðningsmaður Newcastle hafði hnigið niður. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að líðan hans sé stöðug, og að hann hafi verið fluttur á næsta sjúkrahús.

Leikurinn gat því haldið áfram, og á fjórðu mínútu uppbótartíma bætti Heung-Min Son við þriðja marki Tottenham.

Staðan var því 3-1 þegar gengið var til búningsherbergja, en gestirnir í Tottenham virtust líklegri til að bæta við í seinni hálfleik.

Útlitið batnaði ekki fyrir heimamenn þegar Jonjo Shelvey krækti í sitt annað gula spjald og þar með rautt rúmum tíu mínútum fyrir leikslok.

Þrátt fyirr að vera manni færri náðu heimamenn að klóra í bakkann þegar Eric Dier varð fyrir því óláni að setja boltann í sitt eigið net á 89. mínútu.

Nær komust heimamenn þó ekki og þúsundasti stjóraleikur Bruce, og jafnframt fyrsti leikur liðsins eftir að nýir eigendur tóku við, endaði með 3-2 tapi gegn Tottenham.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.