Íslenski boltinn

Hannes: „Heimir vill ekki hafa mig hjá félaginu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson veit ekki hvar hann spilar á næsta tímabili.
Hannes Þór Halldórsson veit ekki hvar hann spilar á næsta tímabili. vísir/bára

Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður, segir að Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, vilji ekki hafa hann lengur hjá félaginu.

Hannes gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2019 og á eitt ár eftir af samningi sínum við félagið. Eftir þetta tímabil, þar sem Valur endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar, fékk Valur Guy Smit frá Leikni.

Í viðtali við síðdegisþáttinn á útvarpsstöðinni K100 segir Hannes að Heimir hafi tjáð honum að krafta hans væri ekki lengur óskað hjá Val. Markvörðurinn segist ekkert hafa heyrt í neinum frá Val síðan þá.

„Ég get al­veg sagt hlut­ina eins og þeir eru og það sem ég veit. Ég veit að þjálf­ar­inn vill ekki hafa mig hjá fé­lag­inu. Ég hef hvorki heyrt hósta né stunu frá fé­lag­inu síðan mér var til­kynnt það. Ég veit ekki hvers vegna eða hvernig menn hyggj­ast leysa þessa skrítnu stöðu sem er kom­in upp. Ég er bara stein­hissa á þessu ef ég að segja al­veg eins og er,“ sagði Hannes sem segist ekki hafa fengið neinar frekari skýringar frá Heimi, af hverju hann vildi ekki halda honum hjá Val.

Hannes veit ekki hvernig málin verði til lykta leidd, hvort hann verði áfram hjá Val eða rói á önnur mið.

„Eina sem ég veit er að þjálfarinn hyggst ekki nota mig en það er ákveðin pattstaða sem er komin upp og er skrítin og er, að því er ég best veit, ekki unnið í að leysa,“ sagði Hannes.

Hann hefur ekki í hyggju að leggja hanskana á hilluna en veit þó ekki hvar hann spilar á næsta tímabili.

„Ég á eitt ár eftir af samningi og hafði ekkert hugsað mér að hætta í fótbolta og sérstaklega ekki svona, þannig ég sit og bíð. Fyrsta æfing hjá Val er 10. nóvember og ég er bara að fara að mæta á hana,“ sagði Hannes. Ekki hefur verið mikið um þreifingar frá öðrum félögum.

„Það hefur ekki verið mikið ef ég á að segja eins og er. Nú er ég bara að giska, fólk veit kannski ekki hver staðan er,“ sagði Hannes.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×