Enski boltinn

Liverpool- og HM-hetjan Roger Hunt látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roger Hunt var lykilmaður í liði Liverpool á 7. áratug síðustu aldar.
Roger Hunt var lykilmaður í liði Liverpool á 7. áratug síðustu aldar. getty/Liverpool FC

Roger Hunt, næstmarkahæsti leikmaður í sögu Liverpool og heimsmeistari með Englandi 1966, er látinn, 83 ára að aldri.

Hunt lék með Liverpool á árunum 1958-69, alls 492 leiki og skoraði 285 mörk. Hann var markahæsti leikmaður í sögu Liverpool í 23 ár, eða þar til Ian Rush sló markametið hans 1992. Enginn leikmaður hefur skorað fleiri deildarmörk fyrir Liverpool en Hunt, 244 mörk. 

Hunt lék alla sex leiki Englands á HM 1966 og skoraði þrjú mörk. Hann lék alls 34 landsleiki og skoraði átján mörk.

Nú eru aðeins þrír eftirlifandi úr byrjunarliði Englands gegn Vestur-Þýskalandi í úrslitaleik HM 1966; Sir Geoff Hurst, Sir Bobby Charlton og George Cohen.

Hunt varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Liverpool (1964 og 1966) og einu sinni bikarmeistari (1965). Þá hjálpaði hann Liverpool að vinna B-deildina 1962. Eftir að Hunt yfirgaf Liverpool 1969 lék hann í þrjú ár með Bolton Wanderers.

Þess má geta að Hunt skoraði í báðum leikjum Liverpool gegn KR 1964. Það voru fyrstu Evrópuleikir í sögu Liverpool.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.