Enski boltinn

„Hefði ekki trúað því ef einhver hefði sagt við mig að ég myndi spila fyrir United“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
María Þórisdóttir fagnar sínu fyrsta marki fyrir Manchester United sem kom í 1-3 sigri á Leicester City 12. september.
María Þórisdóttir fagnar sínu fyrsta marki fyrir Manchester United sem kom í 1-3 sigri á Leicester City 12. september. getty/Matthew Ashton

Norska landsliðskonan María Þórisdóttir kann afar vel við sig hjá Manchester United. Hún gekk í raðir liðsins frá Chelsea í byrjun þessa árs.

María er sem alþekkt er dóttir Selfyssingsins Þóris Hergeirssonar, þjálfara norska kvennalandsliðsins í handbolta. Móðir hennar, Kirsten Gaard, er norsk, hún bjó í Noregi þar til hún fór til Englands 2017 og leikur með norska landsliðinu. En Íslandstengingin er sterk.

María lék með Chelsea frá haustinu 2017 og fram í janúar á þessu ári þegar hún samdi við United. Á síðasta tímabili endaði liðið í 4. sæti ensku deildarinnar. Að því loknu hætti þjálfarinn Casey Stoney og sterkir leikmenn fóru. Má þar meðal annars nefna bandarísku landsliðskonurnar Tobin Heath og Christen Press og enska ungstirnið Lauren James.

Þjálfaraleit United gekk hægt en á endanum tók Marc Skinner við liðinu. Hann þjálfaði áður lið Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur, Orlando Pride.

„Undirbúningstímabilið var gott. Við misstum nokkra góða leikmenn en fengum 3-4 nýja sem eru mjög góðar. Við byrjuðum undirbúningstímabilið án þjálfara en þegar hann kom inn tók hann strax til óspilltra málanna sem var flott. Þetta undirbúningstímabil var mjög gott,“ sagði María í samtali við íþróttadeild.

María í leik með Chelsea gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu. Við hlið hennar er Cloé Lacasse, fyrrverandi leikmaður ÍBV.getty/Gualter Fatia

Chelsea er enskur meistari, komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu á síðasta tímabili og hefur lengi verið í fremstu röð í kvennaboltanum. Aftur á móti eru aðeins þrjú ár síðan United setti kvennalið á laggirnar. María segir að því sé enn talsverður munur á félögunum.

„Chelsea hefur verið í þessu í tíu ár á meðan United byrjaði bara fyrir þremur árum. Það er munur en United er samt gert mjög vel. Stærsti munurinn er á aðstæðunum. United á enn töluvert í land miðað við Chelsea en er á réttri leið. United er gott og verður mjög gott,“ sagði María.

Þjálfari Chelsea er Emma Hayes en hún þykir afar fær í sínu fagi. „Hún er þjálfari sem hefur náð góðum árangri og gert vel hjá Chelsea,“ sagði María.

Sem fyrr sagði lenti United í 4. sæti ensku deildarinnar á síðasta tímabili. Liðið var aðeins einu stigi frá 3. sætinu sem gefur þátttökurétt í Meistaradeildinni. Þangað ætlar United í vetur.

„Við viljum vinna hvern einasta leik. Við viljum komast í Meistaradeildina. Það er stærsta markmiðið. Við vorum mjög nálægt því og vorum vonsviknar að ná því ekki. En við reynum aftur í ár,“ sagði María.

Klippa: Viðtal við Maríu Þórisdóttur

Þótt kvennalið United sé ekki gamalt segir María það mikla upplifun að spila fyrir félagið.

„Það er mjög stórt. Ef einhver hefði sagt við mig þegar ég var stelpa að ég myndi spila fyrir United hefði ég ekki trúað því. United er svo stórt félag. Þegar ég skrifaði undir samning hérna var mikill áhugi alls staðar frá,“ sagði María.

Hún er á sínu fimmta tímabili á Englandi og segir að deildin þar í landi sé alltaf að verða betri og áhuginn að aukast.

Uppgangur kvennaliðs United hefur verið mjög hraður en það var ekki sett á laggirnar fyrr en 2018. Undanfarin tvö tímabil hefur United endað í 4. sæti ensku deildarinnar.getty/Matthew Ashton

„Það er mikill munur. Núna eru þetta allt atvinnumannalið. Þau voru það ekki þegar ég kom 2017. Leikurinn er betri og hraðari og áhuginn meiri. Fyrir covid vorum við með fjögur til fimm þúsund manns á hverjum leik. Áhuginn er mikill og verður eflaust enn meiri þegar faraldrinum slotar,“ sagði María.

United spilar heimaleiki sína á Leigh Sports Village en lék einn leik á Old Trafford, heimavelli karlaliðsins, í mars á þessu ári. Það var þó leikið fyrir luktum dyrum.

„Við spiluðum einn leik í fyrra og það var rosalega flott. Vonandi getum við gert það aftur með stuðningsmönnum,“ sagði María að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×