Enski boltinn

Sjáðu mörkin: Þægilegur sigur hjá Man. United í fyrsta leik

Valur Páll Eiríksson skrifar
Batlle fagnar síðara marki United í kvöld.
Batlle fagnar síðara marki United í kvöld. Charlotte Tattersall - The FA/The FA via Getty Images

Manchester United vann 2-0 sigur á Reading í fyrsta leik tímabilsins í ensku ofurdeildinni í fótbolta. María Þórisdóttir spilaði allan leikinn fyrir United.

Það gekk á mörgu hjá United í sumar þar sem knattspyrnustjórinn Casey Stoney sagði upp störfum og fjölmargir leikmenn yfirgáfu félagið, þar á meðal bandarísku stjörnurnar Christen Press og Tobin Heath.

Marc Skinner, sem tók við liðinu af Stoney, var að stýra liðinu í fyrsta sinn í deildarleik og vann liðið 2-0 heimasigur. Kirsty Hanson skoraði fyrra markið eftir stoðsendingu Ellu Toone á 39. mínútu.

Toone lagði einnig upp annað markið fyrir hina spænsku Ona Batlle sem skoraði fallegt mark á 54. mínútu.

Hin norsk-íslenska María Þórisdóttir spilaði allan leikinn fyrir Manchester United sem hefur nýja leiktíð á sigri eftir stormasamt sumar.

Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir og liðsfélagar hennar í West Ham United spila sinn fyrsta leik á tímabilinu gegn Brighton á sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×