Veður

Von á lægð að landinu í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu tólf til tuttugu stig í dag, þar sem hlýjast verður austanlands.
Hiti verður á bilinu tólf til tuttugu stig í dag, þar sem hlýjast verður austanlands. Vísir/Vilhelm

Nokkur stöðugleiki hefur verið í veðrinu undanfarna daga en um helgina er útlit fyrir breytingar á því.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í dag verði sunnan og suðaustan fimm til þrettán metrum á sekúndu en þrettán til átján á norðanverðu Snæfellsnesi. 

Áfram verði þungbúið og lítilsháttar súld með köflum sunnan- og vestantil á landinu en bjartviðri á Norðaustur- og Austurlandi. Hiti verður á bilinu tólf til tuttugu stig, þar sem hlýjast verður austanlands.

„Í nótt er von á lægð að landinu með vaxandi suðaustanátt, 15-23 m/s og rigning um sunnan- og vestanvert landið. Hvassast verður í vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi og þar geta hviður verið um og yfir 30 m/s. Norðaustantil verður þó heldur hægari vindur, sunnan 8-13 m/s og bjart með köflum. Hiti 11 til 19 stig, hlýjast á Norðausturlandi.“ 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag: Sunnan og suðaustan 8-15 m/s og rigning á vesturhelming landsins en enn hvassara í vindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi. Hægari vindur og bjart með köflum austantil. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á sunnudag: Suðaustlæg og síðar suðvestlæg átt og rigning með köflum sunnan- og vestanlands, en lengst af þurrt norðaustantil. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á mánudag: Suðlæg átt og vætusamt, einkum um sunnan- og vestanvert landið. Hiti breytist lítið.

Á þriðjudag: Suðvestlæg eða breytileg átt 3-8 m/s og víða bjartviðri. Kólnar norðanlands.

Á miðvikudag: Suðvestlæg átt og að mestu léttskýjað. Hiti breytist lítið.

Á fimmtudag: Útlit fyrir suðvestanátt og skúrir, en bjart með köflum austantil.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×