Umfjöllun og viðtöl: Kefla­vík - Valur 1-1 | Keflavík náði mikilvægu stigi gegn Íslandsmeisturunum

Atli Arason skrifar
Keflvíkingar eru nú ansi nálægt því að tryggja sæti sitt í Pepsi Max deild kvenna á næstu leiktíð.
Keflvíkingar eru nú ansi nálægt því að tryggja sæti sitt í Pepsi Max deild kvenna á næstu leiktíð. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík gerði 1-1 jafntefli við nýkrýnda Íslandsmeistara Vals í 17. og næst síðustu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta. Keflavík er ekki tölfræðilega öruggt frá falli þrátt fyrir úrslitin en þær eru þó með pálman í höndunum.

Leikurinn byrjaði af miklum krafti. Það voru ekki nema rúmar tvær mínútur liðnar frá upphafssparkinu þegar eitt af mörkum tímabilsins, ef ekki bara mark tímabilsins kom. Þá leika Valskonurnar Mary Alice og Cyera Makenzie vel sín á milli á vinstri vængnum áður en Celine Rumpf, varnarmaður Keflavíkur, kemst inn í sendingu þeirra á milli sem fer þó ekki betur en svo að boltinn dettur fyrir Valskonuna Ídu Marínu á horni vítateigs Keflavíkur. Ída á þrumuskot sem flýgur upp í samskeytin fjær. Algjörlega óverjandi fyrir Tiffany Sornpao, markvörð Keflavíkur. Leikurinn heldur áfram að vera fjörugur þar sem bæði lið fá ágæt tækifæri án þess að setja knöttinn í netið. Þær marktilraunir sem Valur átti sem fóru í raun á markið réð Tiffany vel við í marki Keflavíkur. Það var svo á 34. mínútu sem næsta mark leiksins kom og féll það í skaut Aerial Chavarin, markahrók Keflavíkur. Dröfn Einarsdóttir, leikmaður Keflavíkur, á þá flottan sprett upp vinstri kantinn og nær að smella boltanum fyrir mark Vals þar sem Aerial rís hæst. Kollspyrna Aerial fer hátt upp og vindurinn nær einhvern veginn að grípa boltann og stöðva hann frá því að fara yfir markið og þess í stað dettur knötturinn niður í fjærhornið. Á meðan stóð Sandra Sigurðardóttir frosin á marklínunni og gat í raun lítið sem ekkert gert í þessu marki.

Valskonur ógnuðu meira það sem eftir lifði leiks en varnarleikur Keflavíkur hélt Íslandsmeisturunum frá því að setja annað mark. Liðin gengu því til búningsherbergja í hálfleik í stöðunni 1-1.

Síðari hálfleikur var nánast einstefna að marki Keflavíkur. Valur var töluvert meira með boltann en þeim gekk ekki nægilega vel að opna vörn Keflavíkur. Þær marktilraunir sem þó komu á mark Keflavíkur var Tiffany Sornpao ekki í vandræðum með, en Tiffany var afar öflug í liði Keflavíkur í dag. Fór svo að lokum að leiknum lauk 1-1 við mikinn fögnuð heimakvenna en stigið fer lang leiðina með því að tryggja veru Keflavíkur í efstu deild á næsta tímabili. Fyrir lokaumferð deildarinnar er Keflavík með þriggja stiga forskot á Tindastól ásamt því að sex mörk inni á Stólanna.

Afhverju varð jafntefli?

Það má halda því fram að Valur hafi ekki viljað þetta nógu mikið í dag en umfram allt þá var varnarleikur Keflavíkur mjög öruggur en þær gátu ekki gert neitt til að koma í veg fyrir markið sem þær fengu á sig í upphafi leiks.

Hverjar stóðu upp úr?

Tiffany Sornpao. Tiffany var afar örugg í öllum sínum aðgerðum í dag og varði öll þau skot sem á hana komu að frátöldu óverjandi þrumuskoti Ídu Marínar í upphafi leiks. Hjá Valskonum stóð Ída Marín upp, fyrir utan markið sem hún skoraði þá var hún alltaf líkleg til að gera eitthvað og var hún mjög lífleg í sóknarlínu Vals í dag.

Hvað gerist næst?

Lokaleikur Vals er gegn Selfoss á föstudaginn. Þá mun bikarinn fara á loft hjá Íslandsmeisturunum. Keflavík á erfitt og mikilvægt ferðalag fyrir höndum norður á Akureyri. Þar mæta þær Þór/KA og þurfa a.m.k. eitt stig til að gulltryggja sæti sitt í efstu deild.

„Það vantar aðallega að eitthvað sé undir hjá okkur“

Eiður Benedikt Einarsson (til hægri), segir að það sé erfitt að koma liðinu í gírinn þegar að ekkert er undir.Vísir/Vilhelm

Eiður Benedikt Eiríksson, annar af þjálfurum Vals, var ekkert að svekkja sig of mikið á úrslitum leiksins þegar hann kom í viðtal við Vísi eftir leik.

„Við vorum að vinna titill og það var skrítinn bragur yfir þessum leik hjá okkur. Maður gleymdi því stundum að þetta væri keppnisleikur af því að fyrir okkur þá er þetta smá eins og æfingarleikur, þannig lagað. Hrós á mína leikmenn samt því við lögðum okkur fram allan tímann þó svo það hafi vantað aðeins upp á inn í vítateignum. Að sama skapi er þetta vel gert hjá Keflavík, þær komu hingað með ákveðið plan og það gekk upp hjá þeim í dag,“ sagði Eiður.

„Það vantar aðallega að eitthvað sé undir hjá okkur. Ég held það sé ekkert annað. Það vantaði þetta extra, hvað það er breytir ekki öllu máli.“

Eiður var þá spurður út í markið sem Ída Marín skoraði, sem var vægast sagt glæsilegt og það vantaði ekkert extra í því marki.

„Manni var smá brugðið þannig lagað,“ sagði eiður og hló áður en hann hélt áfram, „nei nei, hún á þetta til og kann þetta. Það er vonandi að hún fari að setja fleiri svona.“

Framundan er lokaleikur Íslandsmeistara Vals á Hlíðarenda gegn Selfossi en Eiður býst við að sá leikur muni ekki þróast eins og þessi leikur í dag.

„Næsti leikur verður vonandi aðeins öðruvísi, þá erum við á heimavelli og fáum vonandi aðeins betra veður en var í dag. Titillinn fer náttúrulega á loft þá þannig það verður aðeins meira spenna þá.“

„Staðan eins og hún er núna er vissulega góð“

Gunnar Magnús Jónssonvísir/vilhelm

Gunnar Jónsson, þjálfari Keflavíkur, var mjög ánægður með stigið í dag.

„Ég er gríðarlega sáttur. Við lögðum upp með ákveðið varnarskipulag og það tókst bara nokkuð vel. Það var unnið eftir því alveg upp á 10,“ sagði Gunnar í viðtali við Vísi eftir leik.

„Hvað fengu þær [Valskonur] mörg góð færi? Ég held að þau séu ekki mörg. Þær áttu erfitt með að komast í gegnum okkur en fengu kannski svona hálffæri en við fengum líka alveg okkar sénsa og við hefðum alveg getað stolið öllum þremur stigunum.“

Tiffany Sornpao var meðal bestu leikmanna vallarins og Gunnar hrósaði henni eftir leik en hún gat þó afar lítið gert í markinu sem Ída Marín skoraði.

„Þetta var geggjað mark og ekkert við því að gera. Þetta er örugglega mark sumarsins myndi ég áætla. Það reyndi kannski ekki mikið á Tiffany í vörslunum en hún var gríðarlega örugg í öllum aðgerðum og hún er mjög mikilvæg fyrir okkur.“

Keflavík þarf eitt stig í viðbót til að tryggja áframhaldandi veru liðsins í efstu deild. Næsti leikur liðsins er gegn Þór/KA og Gunnar hefur trú á sínum stelpum.

„Það er gott móment í liðinu. Við erum núna búnar að taka fjóra leiki í röð þar sem við erum taplausar og við ætlum að halda því áfram og klára þetta mót. Síðan þegar síðasta leik er lokið þá teljum við saman stigin og sjáum hvar við stöndum. Staðan eins og hún er núna er vissulega góð,“ sagði Gunnar Jónsson, þjálfari Keflavíkur, að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.