Erlent

Telja miklar líkur á annarri hryðjuverkaárás

Kjartan Kjartansson skrifar
Afganskur faðir réttir breskum hermanni barnið sitt við flugvöllinn í Kabúl. Þúsundir Afgana hafa reynt að flýja land undan stjórn talibana en ljóst er að ekki komast allir burt sem vilja.
Afganskur faðir réttir breskum hermanni barnið sitt við flugvöllinn í Kabúl. Þúsundir Afgana hafa reynt að flýja land undan stjórn talibana en ljóst er að ekki komast allir burt sem vilja. AP/Bandaríkjaher

Joe Biden Bandaríkjaforseti segir mjög líklegt að reynt verði að fremja aðra hryðjuverkaárás í Kabúl á næstu sólarhringum. Hann boðar áframhaldandi loftárásir á Ríki íslams sem lýsti yfir ábyrgð á sjálfsmorðssprengjuárásinni sem felldi á annað hundrað manns á fimmtudag.

Bandarískt herlið á að fara farið frá Afganistan eftir tuttugu ára veru á þriðjudag. Enn er verið að flytja burt erlenda ríkisborgara og Afgana sem eru taldir í sérstakri hættu nú þegar talibanar hafa tekið völdin í landinu.

Liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í Afganistan notfærðu sér örvæntingu Afgana að komast úr landi og gerðu sjálfsmorðssprengjuárás í mannþröng sem reyndi að komast inn á alþjóðaflugvöllinn í Kabúl á fimmtudag. Talið er að allt að 170 manns hafi fallið, langflestir Afganar en einnig þrettán bandarískir hermenn.

Þegar Biden ræddi við fréttamenn í Washington-borg í gær sagði miklar líkur á annarri hryðjuverkaárás. Utanríkisráðuneyti hans segir sértækar og trúverðugar upplýsingar um ógnina til staðar, að sögn AP-fréttastofunnar. Það gaf út öryggisviðvörun snemma í morgun og ráðlagði fólki að yfirgefa flugvallarsvæðið strax.

Bandaríkjaher gerði drónaárás á liðsmenn ISIS-K, eins og deild hryðjuverkasamtakanna í Afganistan kallast, á aðfaranótt laugardags. Fullyrti hann að tveir liðsmenn samtakanna hefðu fallið.

Biden sagði að árásin yrði ekki sú síðasta.

„Við ætlum að halda áfram að elta uppi hverja þá sem áttu þátt í þessari svívirðilegu árás og láta þá gjalda þess,“ sagði forsetinn í yfirlýsingu.


Tengdar fréttir

Tvær afganskar fjölskyldur komnar og fleiri á leiðinni

Tvær afganskar konur sem stunduðu nám í Jafnréttisskólanum Gró á Íslandi eru komnar til landsins með fjölskyldum sínum. Utanríkisráðuneytið veit af fjórum Afgönum til viðbótar sem eru á leiðinni til landsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×