Erlent

Svöruðu hryðju­verkunum í Kabúl með dróna­á­rás á Ríki íslams

Kjartan Kjartansson skrifar
Bandarískir hermenn gæta flugvallarins í Kabúl. Aukin hætta er talin á hryðjuverkum þar síðustu daga brottflutnings alþjóðlegs herliðs.
Bandarískir hermenn gæta flugvallarins í Kabúl. Aukin hætta er talin á hryðjuverkum þar síðustu daga brottflutnings alþjóðlegs herliðs. AP/bandaríska varnarmálaráðuneytið

Bandaríkjaher gerði drónaárás á hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Afganistan í nótt til þess að hefna fyrir hryðjuverkaárásina sem var gerð við flugvöllinn í Kabúl á fimmtudag. Vestrænt herlið býr sig undir möguleikanna á frekari hryðjuverkum.

Einn skipuleggjandi Ríkis íslams er sagður hafa fallið í drónaárásinni að því er sagði í yfirlýsingu frá Bandaríkjaher. Honum sé ekki kunnugt um að óbreyttir borgarar hafi fallið, hefur Reuters-fréttastofan upp úr yfirlýsingunni.

Árásin var gerð í Nangarhar-héraði austur af Kabúl sem á landamæri að nágrannaríkinu Pakistan. Herinn hefur ekki greint frá því hvort að skotmörk árásarinnar tengist hryðjuverkaárásinni við Kabúlflugvöll. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti hafði heitið því að hafa hendur í hári liðsmanna samtakanna eftir hryðjuverkin. AP-fréttastofan segir að Biden hafi heimilað árásina og að Lloyd Austin, varnarmálaráðherra, hafi gefið skipun um hana.

Svæðissamtök Ríkis íslams í Afganistan, svonefnd ISIS-K, lýstu yfir ábyrgð á sjálfsmorðssprengjuárásinni á fimmtudag. Talið er að allt að 170 manns hafi látið lífið þegar liðsmaður hryðjuverkasamtakanna sprengdi sjálfan sig í loft upp í miðri mannþröng Afgana sem biðu þess að reyna komast inn á flugvöllinn til að flýja yfirvofandi stjórn talibana. Langflestir þeirra látnu voru Afganar en þrettán bandarískir hermenn féllu einnig í árásinni.

Hættulegstu dagarnir til þessa

Bandarískir embættismenn telja líklegt að frekari hryðjuverkaárásir verði gerðar í Kabúl á lokadögum brottflutnings bandarísks og alþjóðlegs herliðs, að sögn New York Times. Bandaríkjastjórn ætlar að ljúka endanlegu brotthvarfi sínu frá Afganistan á þriðjudag, 31. ágúst.

„Við erum sannarlega undir það búin og reiknum með frekari tilræðum,“ segi John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins um hættuna á frekari árásum.

Fram að þessu hefur Bandaríkjastjórn flutt um 111.000 manns frá Afganistan á undanförnum tveimur vikum. Enn bíða margir erlendir ríkisborgarar og Afganar þess að komast frá landinu. Þúsundir manna hafa safnast saman við flugvöllinn í Kabúl á hverjum degi og það ástand nýtti ISIS sér til þess að fremja voðaverkin á fimmtudag.

Bandaríska sendiráðið í Kabúl varar Bandaríkjamenn við því að nálgast flugvöllinn vegna öryggishættu. Óttast er að þeir dagar sem eftir eru af brottflutningnum séu þeir hættulegustu til þessa, að sögn Jen Psaki, blaðafulltrúa Hvíta hússins.


Tengdar fréttir

Óttast frekari árásir ISIS í Afganistan

Viðbúnaður er hjá bandarísku herliði sem aðstoðar við brottflutning afganskra flóttamanna frá Kabúl vegna möguleikans á fleiri hryðjuverkaárásum. Fleiri en hundrað manns, afganskir borgarar og bandarískir hermenn, féllu í sjálfsmorðssprengjuárás í gær.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.