Umfjölun og viðtöl: Fylkir – Breiða­blik 0-7 | Blikar rúlluðu yfir Fylkismenn í Lautinni

Atli Arason skrifar
Blikar unnu stórsigur í Árbænum
Blikar unnu stórsigur í Árbænum Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik skellti sér aftur á top Pepsi Max deildarinnar með 0-7 stórsigri í Árbænum í kvöld.

Fyrri hálfleikur var einstefna nánast allan tímann. Blikarnir mættu í stuði á meðan stemningin virtist ekki vera mikill í Fylkisliðinu.

Yfirburðir Breiðabliks skilaði árangri á 12. mínútu þegar Kristinn Steindórs skoraði fyrsta mark leiksins. Jason Daði á þá sendingu af hægri vængnum sem Ólafur Kristófer, markvörður Fylkis, slær út í vítateig Fylkismanna en beint í lappir á Kidda sem gat ekki annað en sett boltann í netið.

Höskuldur Gunnlaugsson tvöfaldaði forystu Breiðabliks með öðru marki þeirra á 21. mínútu. Blikarnir Alexander, Jason og Viktor spila boltanum sín á milli út á hægri væng áður en að Viktor lætur Höskuld fá boltann og sá síðarnefndi hleypur inn völlinn og á skot rétt fyrir utan vítateiginn og boltinn lekur inn á nærhornið.

Breiðablik hefði hæglega náð að bæta við fleiri mörkum en á 27. mínútu þá sleppur Árni Vill einn í gegn eftir að hafa unnið boltann af aftasta mann Fylkis, Orra Svein, Árni brunar í átt að marki en Ólafur Kristófer gerir vel að sjá við Árna í þetta skipti og heldur forystu Breiðabliks í aðeins tveimur mörkum. Á 35. mínútu ná gestirnir þó að bæta í forystu sína og var þar að verki Viktor Karl Einarsson eftir frábæran undirbúning hjá Kidda Steindórs, Höskulds og Gísla Eyjólfs en sá síðast nefndi leggur boltann út í vítateig Fylkis þar sem Viktor nær að stýra boltanum í netið.

Kvöldið hans Ólafs Kristófer gat ekki versnað mikið meira en á 42. mínútu þegar hann blakar boltanum í eigið net þegar honum gekk ekki að ráða við það sem virtist vera auðveld fyrirgjöf frá Viktori Karli. 0-4 í hálfleik.

Fylkismenn komu baráttuglaðir út í síðari hálfleik og virtust vera staðráðnir í að leyfa Blikunum ekki að niðurlægja sig. Heimamenn fengu nokkur góð færi en Anton Ari var vel vakandi í marki Blika og sá við öllum marktækifærum þeirra. Fór svo að Breiðablik skoraði næsta mark leiksins, en þar var Höskuldur Gunnlaugsson að verki með rosalegu viðstöðulausu skoti fyrir utan vítateig sem flaug í fjær hornið, algjörlega óverjandi fyrir Ólaf Kristófer í marki Fylkis. Þarna voru heimamenn endanlega búnir að kasta inn hvíta handklæðinu þar sem fimm mínútum síðar kemur skyndisókn hjá gestunum sem fjölmenna í sóknina og að lokum er bakvörðurinn Davíð Örn Atlason orðinn fremsti maður og sloppinn einn í gegn eftir sendingu frá Árna Vill. Davíð bregst ekki bogalistin og setur knöttinn í fjær hornið. Það var svo Árni sem sjálfur kláraði leikinn með sjöunda marki kvöldsins. Árni fær flotta sendingu frá Gísla Eyjólfs og klárar færið með því að setja knöttinn upp í slá og þaðan í netið. 0-7 stórsigur Breiðabliks staðreynd.

Afhverju vann Breiðablik?

Blikar hafa rosaleg gæði innan sinna raða. Gestunum gekk rosalega vel að halda boltanum innan liðsins og fékk hann að fljóta vel manna á milli og Fylkismönnum gekk ekkert að klukka þá.

Hverjir stóðu upp úr?

Allt lið Breiðabliks á skilið hrós í kvöld og í raun ósanngjarnt að taka einhvern einn út.

Hvað gekk illa?

Ólafur Kristófer, markvörður Fylkis, hefur átt betri daga. Það voru að minnsta kosti fjögur mörk sem hann hefði geta gert betur í.

Hvað gerist næst?

Fylkir á langt freðalag fyrir höndum norður á Greifavöllinn þar sem þeir mæta KA. Sama dag frá Blikar Valsmenn í heimsókn í leik sem bæði lið verða að vinna.

„Við vorum góðir fyrir utan kannski 10 mínúta kafla í síðari hálfleik“

Vísir/Hulda Margrét

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, þakkaði andstæðingum sínum fyrir baráttugleði þeirra er hann kom í viðtal við Vísi eftir leik.

„Ég verð að hrósa Fylkisliðinu. Þeir gáfu okkur 90 mínútur og börðust eins og ljón. Þeir reyndu og reyndu og reyndu og ég tek hatt minn að ofan fyrir þeim að hafa ekki gefist upp fyrr. Þetta var erfitt fyrir þá. Ég er annars mjög ánægður með mína menn, við vorum góðir fyrir utan kannski 10 mínúta kafla í síðari hálfleik þar sem mér fannst við ekki hafa stjórn á leiknum. Fyrir utan það fannst mér við vera góðir, fagmannlegir og taka góðar ákvarðanir.“

Næsti leikur Breiðabliks er stórleikur gegn Val og Óskar kveðst virkilega spenntur fyrir þeim leik sem kemur strax eftir landsleikjahléið.

„Við viljum spila svoleiðis leiki, leiki sem skipta máli. Það er gott tækifæri fyrir liðið til að þroskast, bæði liðið og einstaklingana. Við notum landsleikjahléið til að fínpússa ákveðna hluti og hvíla lúinn bein. Þetta er búið að vera þétt törn alveg frá því í júlí þannig þetta verður kærkomin hvíld fyrir marga og svo mætum við aftur endurnærðir og ferskir,“ sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.

„Tölurnar tala sínu máli.“

Atli Sveinn ÞórarinssonHulda Margrét

Atli Sveinn Þórarinsson, annar af aðalþjálfurum Fylkis, var eins og gefur að skilja afar svekktur með frammistöðu síns liðs í kvöld.

„Tölurnar tala sínu máli. Blikarnir voru flottir en við vorum ekki tilbúnir að vinna einn á móti einum eða tveir á móti tveimur eða þrír á móti þremur varnarlega í fyrri hálfleik. Við höfum ekki mikinn áhuga að kasta okkur fyrir skot eða verja markið okkar. Það var aðeins meira hjarta í seinni hálfleik, aðeins skárri frammistaða en ekkert til að tala um,“ sagði Atli í viðtali eftir leik áður en hann bætti við,

„shit happens og þetta var bara einn af þeim dögum. Fylkisliðið er ekki sjö mörkum slakara en Breiðablik þó að Breiðablik sé klárlega með betra fótbolta lið en við. Til að vinna lið eins og Breiðablik þá þurfa menn að vera með meiri baráttu, meiri vilja, meira hugrekki heldur en þeir og það var ekki að sjá í dag. Blikar voru klárir í að gera þessa litlu hluti líka. Það sem er mikilvægast núna er framhaldið. Ef menn ætla að fara að grenja á koddanum í kvöld þá geta menn alveg eins hætt þessu. En ef menn hafa einhvern áhuga á því að spila í Pepsi Max deildinni á næsta ári þá snúa menn bökum saman og mæta á fullum krafi í næsta leik.“

Atli og Óli hafa undanfarið fengið gagnrýni úr ýmsum áttum eftir dapurt gengi liðsins á tímabilinu. Atli er alveg tilbúinn að yfirgefa liðið ef það hjálpar því að vera áfram í efstu deild á næsta ári.

„Það er gaman að fólk hafi áhuga á fótbolta og auðvitað er það eðlilegt alls staðar í fótbolta heiminum þegar liði gengur ekki vel þá fara menn að velta fyrir sér framtíðinni. Stjórnin tekur samt bara ákvörðun um það og ég skal vera fyrsti maðurinn til að stíga frá borði ef það hjálpar liðinu. Ég vil fyrir alla muni að Fylkir sé áfram í Pepsi Max deildinni á næsta ári. Það er ekkert mál að stíga frá borði ef það hjálpar liðinu,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira