Tíu leikmenn Chelsea sóttu stig á Anfield

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Það urðu mikil læti undir lok fyrri hálfleiks.
Það urðu mikil læti undir lok fyrri hálfleiks. Michael Regan/Getty Images

Liverpool og Chelsea gerðu 1-1 jafntefli á Anfield í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Tíu leikmenn Chelsea héldu út og fara með eitt stig aftur til Lundúna.

Heimamenn voru sterkari aðilinn í upphafi leiks, en það voru þó gestirnir sem voru fyrri til að brjóta ísinn. Reece James tók þá hornspyrnu og leikmenn Liverpool virtust gleyma Kai Havertz sem skallaði boltann aftur fyrir sig og yfir Allison í markinu.

Það stefndi allt í að staðan yrði 1-0 þegar flautað yrði til hálfleiks, en í uppbótartíma fyrri hálfleiks varð mikið fjaðrafok. 

Andy Robertson tók þá hornspyrnu og eftir smá basl náði Joel Matip skallanum sem endaði í stönginni. Boltinn barst út í teig og Sadio Mane kom honum á markið í tvígang, en í bæði skiptin bjargaði Reece James á línu.

Liverpool-menn voru virkilega ósáttir og vildu meina að James hafi notað höndina til að verja fyrri tilraun Mane. Anthony Taylor, dómari leiksins, fór að lokum í skjáinn góða og eftir mjög stutta skoðun var hann á sama máli og leikmenn Liverpool. Niðurstaðan var því víti og rautt spjald á Reece James.

Mohamed Salah fór á punktinn fyrir heimamenn og skoraði af miklu öryggi framhjá Edouard Mendy í marki Chelsea.

Eins og við var að búast voru það leikmenn Liverpool sem voru mun líklegri aðilinn í seinni hálfleik, enda manni fleiri.

Leikurin fór að mestu fram í kringum vítateig Chelsea-manna sem vörðust hverri sókninni á fætur annari hetjulega.

Liverpool átti fjöldan allan af skotum á markið, en Mendy var vel vakandi í markinu og inn vildi boltinn ekki. Lokatölur því 1-1 og bæði lið því með sjö stig eftir þrjár umferðir.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.