Erlent

Landamæraskimun verði hætt í Færeyjum

Árni Sæberg skrifar
Farþegar Norrænu munu ekki þurfa að undirgangast skimun við komu til Færeyja frá og með 1. september.
Farþegar Norrænu munu ekki þurfa að undirgangast skimun við komu til Færeyja frá og með 1. september. Smyril line

Að sögn Michaels Boolsen, formanns farsóttarnefndar Færeyja, er staðan vegna Covid-19 svo góð í Færeyjum að ráðlagt sé að hætta skimun á landamærunum.

Því hafi nefndin ákveðið að skimunarskylda verði lögð niður frá og með 1. september næstkomandi. Þetta segir Boolsen í samtali við Kringvarpið.

Boolsen segir einnig að nefndin hafi skilað tillögum til landsstjórnarinnar um frekari afléttingar aðgerða. Hann vildi ekki tjá sig efnislega um tillögurnar fyrr en stjórnin hefði tekið afstöðu til þeirra.

Mæla með að fólk fari í sýnatöku tveimur dögum fyrir og eftir komu

Skrifstofa Lögmanns Færeyja tilkynnti í dag að mælst væri til þess að fólk fari í sýnatöku tveimur dögum fyrir og eftir komu til Færeyja. Þá er hvatt til þess að fólk fari varlega þar til niðurstaða seinni skimunar liggi fyrir.

Bárður á Steig Nielsen lögmaður segist fagna breytingu á reglum á landamærunum en að hann voni jafnframt að fólk fari að tilmælum yfirvalda.

Enginn greindist smitaður í gær

Samkvæmt nýjustu tölum á corona.fo greindist enginn smitaður í Færeyjum í gær. Þá segir einnig að aðeins sex hafi smitast í yfirstandandi bylgju.

Frá upphafi faraldurs í Færeyjum hafa 999 greinst smitaðir og tveir látist af völdum Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×