Umfjöllun og viðtöl: FH - Kefla­vík 0-0 | Bútasaumsvörn Keflvíkinga hélt í Krikanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ástbjörn Þórðarson lék mjög vel í miðri vörn Keflavíkur gegn FH.
Ástbjörn Þórðarson lék mjög vel í miðri vörn Keflavíkur gegn FH. vísir/hulda margrét

FH og Keflavík gerðu markalaust jafntefli í Kaplakrika í frestuðum leik í Pepsi Max-deild karla í kvöld. Þetta var annar leikur liðanna á fimm dögum en FH-ingar rúlluðu yfir Keflvíkinga suður með sjó á laugardaginn, 0-5.

Keflvíkingar voru öllu þéttari fyrir í leiknum í kvöld þrátt fyrir að stilla upp mjög óhefðbundinni varnarlínu vegna mikilla forfalla. Suðurnesjamenn eru eflaust mun sáttari með stigið enda eru þeir nú fjórum stigum frá fallsæti þegar fjórum umferðum er ólokið. Staða liðanna breyttist þó ekkert við úrslitin. FH er enn í 6. sætinu og Keflavík í því níunda.

FH-ingar voru miklu meira með boltann í fyrri hálfleik en fengu aðeins eitt gott færi. Það kom á 36. mínútu. Jónatan Ingi Jónsson stal þá boltanum af Kian Williams og sendi Morten Beck Guldsmed í gegn. Daninn skaut hins vegar framhjá úr úrvalsfæri.

Davíð Snær Jóhannsson fékk besta færi Keflavíkur á 17. mínútu en Gunnar Nielsen varði skot hans aftur fyrir.

Seinni hálfleikurinn var mun fjörugri en sá fyrri. Keflvíkingar byrjuðu hann af miklum krafti og á 48. mínútu voru þeir í tvígang nálægt því að skora í sömu sókninni. Fyrst bjargaði Guðmann Þórisson þegar Dagur Ingi Valsson slapp í gegn og svo skaut Adam Árni Róbertsson í utanverða stöngina.

Eftir þetta hertu FH-ingar tökin án þess þó að fá afgerandi færi. Keflvíkingar voru hins vegar hársbreidd frá því að komast yfir á 65. mínútu. Marley Blair komst þá einn í gegn eftir sendingu varamannsins Christians Volesky en skaut framhjá.

Við þetta vöknuðu heimamenn almennilega til lífsins og næsta stundarfjórðunginn þjörmuðu þeir hressilega að gestunum. Eggert Gunnþór Jónsson átti skot í slá, Ástbjörn Þórðarson bjargaði tvisvar í sömu sókninni, fyrst frá Morten Beck og svo frá Matthíasi Vilhjálmssyni, Sindri Kristinn Ólafsson varði gott skot Björns Daníels Sverrissonar vel og Jónatan Ingi skaut framhjá úr fínu færi.

Eftir þessa miklu orrahríð náði Keflavík áttum og hélt FH að mestu í skefjum á lokamínútum leiksins. Björn Daníel átti skot í slá þegar tvær mínútur voru eftir en annars vörðust Keflvíkingar vel og lönduðu stiginu sem þeir hefðu eflaust verið sáttir með fyrir leikinn, sérstaklega eftir útreiðina á laugardaginn.

Af hverju varð jafntefli?

FH-ingar voru daufir í fyrri hálfleik og létu ekki reyna almennilega á vörn Keflvíkinga sem hafði aldrei spilað saman enda þrír af fjórum leikmönnum í henni ekki að spila í sinni venjulegu stöðu. Heimamenn sóttu stíft í seinni hálfleik, sérstaklega á áðurnefndum kafla, og fengu nógu mörg tækifæri til að skora en án árangurs.

Sóknir Keflvíkinga voru mun færri en þeir voru samt nálægt því að skora í tvígang í seinni hálfleik. Annars spiluðu þeir að mestu leyti góða vörn og unnu vel fyrir stiginu.

Hverjir stóðu upp úr?

Jónatan Ingi skoraði þrjú mörk og lagði upp tvö í leiknum á laugardaginn en náði ekki sama flugi í kvöld. Hann var samt hættulegasti leikmaður FH og líklegastur til að búa til eitthvað. Eggert átti góðan leik í stöðu miðvarðar og gerði vel í keyra upp hraðann í spili FH-inga í seinni hálfleik.

Ástbjörn lék afar vel í óvenjulegu hlutverki í miðri vörn Keflavíkur og við hlið hans var Frans Elvarsson traustur. Adam Árni lét til sín taka og Davíð Snær átti góðan leik á miðjunni. 

Hvað gekk illa?

FH-ingar hljóta að vera ósáttir með spilamennsku sína í fyrri hálfleik þar sem þeir voru í hlutlausum gír og Keflvíkingar áttu ekki í miklum vandræðum með að verja sóknarlotum þeirra.

Morten Beck fór illa með færin sín í leiknum og Matthías hefur oft spilað betur. Þá grætur Blair eflaust færið sem hann klúðraði í seinni hálfleik.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik á sunnudaginn. FH tekur þá á móti Víkingi á meðan Keflavík sækir HK heim í afar mikilvægum leik í fallbaráttunni. Síðan tekur tveggja vikna landsleikjahlé við.

Ólafur: Bar þess merki að við höfum ekki að miklu að keppa

Ólafi Jóhannessyni fannst sínir menn ekki búa til nógu mörg hættuleg færi gegn Keflavík.vísir/Hulda Margrét

Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH, hefði viljað fá meira út úr leiknum gegn Keflavík en eitt stig. Hann segir að spilamennska FH-inga hafi ef vill borið keim af stöðu þeirra í Pepsi Max-deildinni.

„Ég er pínu svekktur en ánægður með að halda markinu okkar hreinu. Við sköpuðum okkur kannski ekki nógu mikið til að klára leikinn en svona er þetta stundum,“ sagði Ólafur.

FH-ingar voru rólegir í tíðinni í fyrri hálfleik en gáfu í eftir hlé og sóttu stíft á löngum köflum.

„Mér fannst fyrri hálfleikur bera þess merki að við höfum ekki að miklu að keppa,“ sagði Ólafur en FH siglir lygnan sjó í 6. sæti deildarinnar.

„Þetta var þægilegt og gott. En svo gáfum við í og mér fannst við vera með öll tök á leiknum en það vantaði meiri kraft á síðasta þriðjungnum,“ sagði Ólafur að endingu.

Sigurður Ragnar: Mjög gott stig á útivelli

Sigurður Ragnar Eyjólfsson og Eysteinn Hauksson stýra liði Keflavíkur í sameiningu.vísir/Hulda Margrét

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, annar þjálfara Keflavíkur, var ánægður eftir markalausa jafnteflið við FH í Kaplakrika í kvöld.

„Já, mér finnst þetta mjög gott stig á útivelli, sérstaklega þar sem við vorum með lemstrað lið og það vantaði marga leikmenn hjá okkur,“ sagði Sigurður Ragnar í leikslok.

Keflvíkingar stilltu upp ansi óhefðbundinni varnarlínu í kvöld en þrír af fjórum í henni spiluðu aðra stöðu en þeir eru vanir.

„Sumir menn spiluðu út úr stöðu. Helgi [Þór Jónsson] spilaði sem vinstri bakvörður held ég í fyrsta sinn á ævinni. Við erum mjög sáttir með að taka stig og spila vel. Við vorum þéttir í vörninni og fengum okkar færi, mjög góð færi,“ sagði Sigurður Ragnar.

Mikil forföll voru hjá varnarmönnum Keflavíkur eins og stundum í sumar.

„Nacho [Heras] fékk tveggja leikja bann. Maggi [Magnús Þór Magnússon] hefur fengið tvö höfuðhögg á stuttum tíma og verður í burtu í einhvern tíma,“ sagði Sigurður Ragnar.

Hann hrósaði þeim leikmönnum sem þurftu að leysa önnur hlutverk en þeir gera venjulega. „Ingimundur [Aron Guðnason], sem er venjulega miðjumaður, spilaði sem hægri bakvörður og Helgi, sem er venjulega framherji, sem vinstri bakvörður. Þessir strákar leystu hlutverkin sín með miklum sóma,“ sagði Sigurður Ragnar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira