Erlent

Hefja notkun á heimalöguðu bóluefni

Kjartan Kjartansson skrifar
Tsai Ing-wen forseti fékk fyrsta skammt af innlenda bóluefni Medigen í dag.
Tsai Ing-wen forseti fékk fyrsta skammt af innlenda bóluefni Medigen í dag. Vísir/EPA

Forseti Taívans reið á vaðið í dag og var á meðal þeirra fyrstu sem fengu nýtt innlent bóluefni gegn kórónuveirunni. Gagnrýnisraddir eru þó uppi um að notkun efnisins hafi verið samþykkt of hratt.

Heilbrigðisráðuneyti eyríkisins veitti heimild til að nota bóluefnið Medigen til notkunar í neyðartilvikum í síðasta mánuði þrátt fyrir að tilraunum á virkni og öryggi þess sé ekki lokið. Framleiðandi efnisins fullyrðir að engar áhyggjur séu af öryggi þess og að virknin sé að minnsta kosti jafngóð og bóluefnis AstraZeneca.

Tsai Ing-wen, forseti, var bólusett með efninu á rannsóknastofu Medigen í dag en hún afþakkaði bóluefni Moderan og AstaZeneca til þess að geta veitt innlenda efninu opinberan stuðning sinn. Hún streymdi því beint á Facebook þegar hún fékk fyrri sprautuna af tveimur.

Taívanir hafa verið tregir til að láta bólusetja sig gegn kórónuveirunni til þessa en tafir á afhendingu bóluefna hafa einnig sett strik í reikning bólusetningaáætlana stjórnvalda, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Aðeins 5% þjóðarinnar er fullbólusett en um 40% hafa fengið fyrri skammt bóluefnis.

Medigen-bóluefnið er svonefnt prótínbóluefni sem er sagt svipa til bóluefnis bandaríska fyrirtækisins Novavax. Til stendur að ljúka þriðja og síðasta áfanga tilrauna með efnið í Paragvæ síðar á þessu ári.

Stærsti stjórnarandstöðuflokkur Taívans hefur verið framarlega í flokki að draga öryggi innlenda bóluefnisins í efa. Tveir félagar í flokknum reyndu að fá neyðarleyfi þess ógilt fyrir dómstólum.

Nú þegar hafa fleiri en 700.000 manns skráð sig til að fá bóluefni Medigen. Það er gefið í tveimur skömmum fyrir mánaðar millibili.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.