Enski boltinn

Lukaku: „Við stjórnuðum leiknum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lukaku skoraði fyrra mark Chelsea í 2-0 sigri gegn Arsenal í dag.
Lukaku skoraði fyrra mark Chelsea í 2-0 sigri gegn Arsenal í dag. Michael Regan/Getty Images

Romelu Lukaku skoraði sitt fyrsta mark í ensku úvalsdeildinni eftir endurkomu sína til Chelsea í 2-0 sigri gegn Arsenal í dag. Hann segir liðið hafi stjórnað leiknum og að þeir hefðu getað skorað meira.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Við spiluðum vel og stjórnuðum leiknum,“ sagði Lukaku að leik loknum. „Við hefðum getað skorað meira, en að koma hingað með þessa frammistöðu, við þurfum að halda svona áfram.“

Lukaku var einnig spurður út í sína eigin frammistöðu í leiknum, en hann hélt áfram að hrósa liðinu.

„Við stjórnuðum leiknum myndi ég segja. Ég reyni að bæta mig í hvert skipti og ég á langt í land, en þetta var góður sigur í dag. Við þurfum að halda áfram að vinna því að enska úrvalsdeildin er mjög jöfn og sterk deild.“

„Þú vilt alltaf leggja þig fram fyrir liðið, skora og búa til færi. Ég er búinn að vinna í því og það eru miklir hæfileikar í þessu liði. Þeir eru Evrópumeistarar og vilja byggja ofan á það og ég vil halda áfram að vinna. Við þurfum að halda áfram að berjast og spila eins og við gerðum í dag.“

Lukaku fékk mjög gott tækifæri í seinni hálfleik til að skora annað mark, en Bernd Leno, markvörður Arsenal, var vel á verði.

„Það eru góðir markmenn í þessari deild og varslan var virkilega góð. Ég var reiður út í sjálfan mig að skora ekki.“

„En það er gott að byrja svona. Ég lagði mikið á mig í vikunni og við vissum að þetta væri stór leikur og við gerðum vel. Sem einstaklingur þá vil ég hjálpa liðinu og halda áfram að gera það,“ sagði Lukaku að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×