Íslenski boltinn

Selfyssingar fjarlægjast falldrauginn eftir dramatískan sigur gegn Grinvíkingum og hagstæð úrslit

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Grindvíkingar héldu að þeir væru að fara með eitt stig með sér heim.
Grindvíkingar héldu að þeir væru að fara með eitt stig með sér heim.

Tveir leikir fóru fram í Lengjudeild karla í kvöld. Selfyssingar unnu hádramatískan 3-2 heimasigur gegn Grindvíkingum og Þróttarar töpuðu 2-1 á heimavelli gegn Gróttu.

Gary Martin kom Selfyssingum yfir snemma leiks áður en hann tvöfaldaði forystu heimamanna tíu mínútum fyrir hálfleik.

Sigurður Bjartur Hallsson minnkaði muninn á 70. mínútu, en hann var aftur að verki tveim mínútum fyrir leikslok þegar hann jafnaði metin.

Grindvíkingar héldu þá líklega að þeir væru búnir að ræna sér einu stigi, en Þór Llorens Þórðarson tryggði heimamönnum mikilvægan 3-2 sigur í fallbaráttunni á lokamínútunum.

Selfyssingar eru þá komnir með 15 stig í tíunda sæti, fimm stigum fyrir ofan fallsvæðið. Grindvíkingar eru enn með 20 stig í sjöunda sæti.

Í hinum leik kvöldsins tók Þróttur á móti Gróttu. Þróttur þurfti virkilega á sigri að halda til að halda í við Selfyssingana íog sogast ekki of djúpt í fallbaráttuna.

Gabríel Hrannar Eyjólfsson kom Gróttumönnum yfir á 15. mínútu, og tvöfaldaði svo sjálfur forystuna þegar að seinni hálfleikur var ekki nema tveggja mínútna gamall.

Sam Hewson minnkaði muninn fyrir Þróttara þegar um tíu mínútur voru til leiksloka, en nær komust þeir ekki og lokatölur því 2-1, Gróttu í vil.

Grótta er þá í fimmta sæti deildarinnar með 23 stig, en Þróttur er í næst neðsta sæti með tíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×