Erlent

Þúsundir flýja heimili sín vegna eldanna og losun koltvísýrings afar mikil

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Sjálfboðaliðar við slökkvistarf nærri bænum Kjújoreljak í Síberíu.
Sjálfboðaliðar við slökkvistarf nærri bænum Kjújoreljak í Síberíu. AP/Ívan Níkíforov

Mörg þúsund hafa flúið heimili sín á grísku eyjunni Evia í gær og í dag þar sem ekkert lát er á einhverjum verstu gróðureldum í manna minnum. Eldar loga enn í Síberíu, Tyrklandi og Kaliforníu. Veðurfræðingur segir losun koltvísýrings vegna eldanna afar mikla.

Mesta hitabylgja í þrjá áratugi gengur nú yfir Grikkland og hefur hiti mælst allt að fjörutíu og fimm stig. Eldar hafa logað víða í landinu, meðal annars nærri höfuðborginni Aþenu sem og á eyjunni Evia. Illa hefur gengið að slökkva eldana og minnst átta hafa farist.

Tugir elda loga sömuleiðis í barrskógabelti Síberíu. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir losun koltvísýrings vegna eldanna í Síberíu afar umfangsmikla.

500 milljónir tonna

„Það er álitið að fyrir helgi hafi bruninn valdið losun koltvísýrings sem nemur 500 milljónum tonna. Það er æði mikið vegna þess að það eru 13 milljónir tonna sem lífríkið á landi tekur til baka. Þarna losnar þetta út í lofthjúpinn nánast í einum vettvangi.“ segir Einar. Losunin sé stórvæg.

„Svo bætast aðrir eldar auðvitað við. Svo sem í Kaliforníu og Kanada og eldarnir við botn Miðjarðarhafs. Ég hef ekki séð mat á losuninni þaðan en þetta eru miklar hamfarir í þessu tilliti líka.“

Þurrt og hlýtt veður eykur líkur á eldum

Einar segir að bent hafi verið á að þurr svæði verði enn þurrari vegna loftslagsbreytinga. Það geri elda sem þessa líklegri.

„Þar sem bæði þornar og hlýnar er hættara við að það brjótist út svona gróðureldar eins og hefur gerst. Álitið núna er að stóru eldarnir í Kaliforníu hafi kviknað vegna þess að þurr tré féllu á raflínu og kviknað í út frá því. Eldurinn verður ekki svona mikill nema vegna þess hversu þurr skógurinn er og hlýtt er í veðri,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.