Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Þór/KA 1-1| Þór/KA tryggði sér stig í blálokin

Andri Már Eggertsson skrifar
Þór/KA fékk stig eftir jöfnunarmark í lok leiks.
Þór/KA fékk stig eftir jöfnunarmark í lok leiks. vísir/bára

Tíðindar litlum leik í Garðabænum lauk með 1-1 jafntefli.

Hildigunnur Ýr kom Stjörnunni yfir snemma leiks. Það benti síðan ekkert til þess að Þór/KA myndi jafna þar til Karen María Sigurgeirsdóttir lét vaða og endaði skot hennar yfir Höllu Margréti og í netinu. 1-1 því niðurstaðan.

Leikurinn fór afar rólega af stað til að byrja með. Það var lítið sem ekkert um marktækifæri á fyrstu tíu mínútnum leiksins en skömmu síðar dró til tíðinda.

Stjarnan braut ísinn eftir tæplega 12. mínútna leik þar sem sending Málfríðar Ernu Sigurðardóttur fór yfir Huldu Björg, þá átti síðan Arna Sif eftir að renna sem varð til þess að Hildurgunnur Ýr var komin ein á móti markmanni sem hún fór framhjá og renndi boltanum í netið.

Yfirburðir Stjörnunnar jukust eftir markið. Þór/KA áttu í erfiðleikum með að halda í boltann og komust lítið sem ekkert á síðasta þriðjung og ógnuðu aldrei marki Stjörnunnar.

Stjarnan fékk ágætis færi til að bæta við forystu sína en Harpa Jóhannsdóttir stóð vaktina vel í markinu og sá til þess að mörkin yrðu ekki fleiri í fyrri hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði eins rólega og hægt sé að ýminda sér. Hvorugt liðið ógnaði markinu fyrstu 18. mínútur síðari hálfleiks.

Stjarnan fékk gott færi til að bæta við forskot sitt þegar skot Betsy Hassett sleikti stöngina af stuttu færi.

Skömmu síðar fékk Margrét Árnadóttir dauðafæri. Boltinn datt fyrir hana í teignum þar sem hún tók á móti honum og gerði vel í að taka hann með sér en náði ekki að koma skot ógn og Stjarnan bjargað á ögurstundu.

Allt stefndi í sigur Stjörnunnar þar til skot Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur fór yfir Höllu Margréti Hinriksdóttur og hafnaði í netinu. 

Stjarnan ógnaði marki Þór/KA mikið undir lok leiks og freistuðu þess að koma inn sigurmarki en gestirnir héldu út og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.

Af hverju endaði leikurinn með jafntefli?

Leikurinn var heilt yfir mjög lokaður og almennt leiðinlegur þar sem lítið var um marktækifæri framan af leik. 

Stjarnan voru talsvert betri í fyrri hálfleik en gerðu aðeins eitt mark sem hefðu getað verið fleiri. Í síðari hálfleik reyndu þær að hanga á þessu eina marki sem kom í bakið á þeim og niðurstaðan því jafntefli.

Hverjar stóðu upp úr?

Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir skoraði eina mark Stjörnunnar í fyrri hálfleik. Þar nýtti hún sér röð mistaka í vörn Þór/KA sem skilaði marki. 

Harpa Jóhannesdóttir var maður leiksins í kvöld. Hún stóð vaktina vel í marki Þór/KA og sá til þess að Stjarnan skoraði aðeins eitt mark í fyrri hálfleik. 

Hvað gekk illa?

Þór/KA var í engum takti við leikinn. Þær komust lítið sem ekkert á síðasta þriðjung þar til um miðjan síðari hálfleik. Þær áttu í miklum vandræðum með að halda boltanum innan liðsins. Mark Stjörnunnar er eftir ansi klaufaleg mistök í vörn Þór/KA.

Það er hægt að setja spurningarmerki við Höllu Margréti Hinriksdóttur í jöfnunarmarki Þór/KA. Skot Karenar var beint á markið og flaug yfir hana í markinu.

Hvað gerist næst?

Stjarnan fer næst á Eimskipsvöllin og mæta Þrótti þriðjudaginn 17. ágúst klukkan 19:15. Á sama degi mætast Þór/KA og Tindastóll klukkan 18:00 á SaltPayvellinum.

Andri Hjörvar: Ég vissi að leikur gegn Kristjáni Guðmunds yrði mikil skák

Andri Hjörvar var sáttur við að fá stig, en heldur ósáttari við spilamennsku sinna kvenna.

Andri Hjörvar Albertsson þjálfari Þór/KA var svekktur með spilamennskuna en kátur með að fá stig úr leiknum.

„Stig er stig eins og sagt er. Þetta var þó ekki það sem við ætluðum okkur fyrir leik og hefðum við átt að spila betri leik hérna í kvöld."

„Ég hefði viljað sjá grunn atriðin betur út færð, við vorum ekki að ná sendingum milli leikmanna og stelpurnar vita það," sagði Andri Hjörvar.

Leikurinn var mjög tíðindalítill og lokaður í báða enda.

„Ég vissi það að gegn Kristjáni yrði leikurinn mikil skák, sem kom á daginn. Þetta eru lík lið þegar litið er á spilamennsku og leikmenn."

„Þetta var bara járn í járn þó leikurinn hafi ekki verið mikið fyrir augað," sagði Andri Hjörvar að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira