Erlent

Al­þjóðaólympíu­nefndin krefst út­skýringa af Hvíta-Rúss­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Alþjóðaólympíunefndin hefur krafið Hvíta Rússland um útskýringar á meðferð Ólympíuliðs landsins á Krystsinu Tsimanouskayu.
Alþjóðaólympíunefndin hefur krafið Hvíta Rússland um útskýringar á meðferð Ólympíuliðs landsins á Krystsinu Tsimanouskayu. Getty/EPA

Alþjóðaólympíunefndin hefur krafið Hvíta-Rússland um að skila inn skýrslu síðar í dag um meðferð hvítrússneska Ólympíuliðsins á spretthlaupara, sem flúði lið sitt og leitaði skjóls í pólska sendiráðinu í Tókýó, þar sem Ólympíuleikarnir fara fram.

Hvítrússneski spretthlauparinn Krystsina Tsimanouskaya leitaði á laugardag skjóls í pólska sendiráðinu í Tókýó eftir að þjálfarar hennar höfðu reynt að senda hana nauðuga heim til Hvíta-Rússlands frá Tókýó, þar sem hún átti að keppa í spretthlaupi á mánudag. Fréttastofa Reuters greinir frá. 

Pólland hefur veitt Tsimanouskayu dvalarleyfi af mannúðarástæðum og hefur hún sótt um pólitískt hæli í landinu. Áætlað er að Tsimanouskaya fljúgi frá Tókýó til Varsjár á morgun, miðvikudag. Eiginmaður Tsimanouskayu, Arseni Zhdavenich, flúði Hvíta-Rússlands í gær og er kominn yfir til Úkraínu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sakaði í gær stjórn Alexanders Lúkasjenkó forseta í Hvíta-Rússlandi um óþolandi kúgun, sem væri farin að smitast út fyrir landsteinana.

Tsimanouskaya var tekin úr keppnisliði Hvíta-Rússlands á laugardag, að hennar sögn vegna þess að hún hafði gagnrýnt þjálfara sína á samskiptamiðlinum Telegram. Gagnrýnin snerist að því að þjálfararnir höfðu skráð hana til leiks í 400 metra boðhlaupi vegna þess að liðsmenn hennar, sem áttu að keppa í greininni, voru ekki með keppnisleyfi því tilskilin lyfjapróf vantaði.

Ólympíunefnd Hvíta-Rússlands hefur haldið öðru fram og tilkynntu þjálfarar Tsimanouskayu að hún hafi verið tekin úr liðinu að læknisráði vegna andlegrar líðan hennar.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×