Veður

Erfitt að elta veðrið um verslunar­manna­helgina

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Það verður allavega sól á Egilsstöðum um helgina þó þar verði alls ekki eins hlýtt og víða annars staðar á landinu.
Það verður allavega sól á Egilsstöðum um helgina þó þar verði alls ekki eins hlýtt og víða annars staðar á landinu. vísir/vilhelm

Ef fólk hyggst elta veðrið um verslunar­manna­helgina gæti það reynst erfitt. Veðrið er best í höfuð­borginni í dag, á Vest­fjörðum á morgun en á Austur- og Norð­austur­landi á sunnu­dag og mánu­dag.

„Það er eigin­lega enginn einn staður sem er hægt að mæla með fram yfir annan þessa helgina,“ segir veður­fræðingur hjá Veður­stofu Ís­lands við Vísi sem leitaðist eftir að fá að vita hvar besta veðrið yrði um verslunar­manna­helgina.

Það er ef­laust erfið til­hugsun fyrir marga að ætla að yfir­gefa bæinn í dag í glampandi sólinni og allt að tuttugu stiga hita. Það er þó skyn­sam­leg á­kvörðun því á laugar­dag, sunnu­dag og frí­dag verslunar­manna verður skýjað og fremur kalt á höfuð­borgar­svæðinu. Þá má búast við ein­hverjum skúrum hér næstu daga.

Vest­firðirnir virðast nokkuð á­kjósan­legur á­fanga­staður yfir helgina: Þar verður víða glampandi sól á morgun, sér­stak­lega á sunnan­verðum Vest­fjörðum og mjög hlýtt, 15 til 20 stig yfir daginn. Þar verður þó hlýrra á norðan­verðum Vest­fjörðum.

Á sunnu­dag og mánu­dag má þó búast við að verðu heldur skýjað yfir Vest­fjörðum.

Á Suður­landi virðist ætla að vera skýjað alla verslunar­manna­helgina og má búast við svipuðu veðri þar og í bænum, þó þar verði ör­lítið hlýrra.

Austur­land og Norð­austur­land hljóta þó að teljast á­kjósan­legustu á­fanga­staðirnir. Þar verður mest sól um helgina þegar á heildina er litið þó veður­fræðingur bendi reyndar á að þar verði ekki hlýjast.

Þar verða um 9 til 15 gráður frá deginum í dag og fram á mánu­dag og þó ský láti sjá sig þar stöku sinnum verður glampandi sól mestan hluta helgarinnar. Þar verður þó alls ekki eins hlýtt og verður í bænum í dag og á Vestfjörðum á morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×