Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Selfoss 2-1 | Glæsimark varamannsins bjargaði Blikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikar fagna sigurmarki Taylors Marie Ziemer.
Blikar fagna sigurmarki Taylors Marie Ziemer. vísir/hulda margrét

Breiðablik vann mikilvægan sigur á Selfossi, 2-1, þegar liðin mættust í 12. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í dag.

Agla María Albertsdóttir kom Blikum yfir en Bergrós Ásgeirsdóttir jafnaði fyrir Selfyssinga. Taylor Marie Ziemer tryggði Breiðabliki svo sigurinn með frábæru marki. Öll mörkin komu á fjögurra mínútna kafla í seinni hálfleik.

Sigurinn var nauðsynlegur fyrir Breiðablik sem er áfram tveimur stigum á eftir toppliði Vals. Selfoss er í 3. sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu átta leikjum sínum í deild og bikar.

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru nokkrum sinnum nálægt því að skora. Strax á upphafsmínútunni munaði minnstu að heimakonur skoruðu eftir mistök í vörn gestanna og á 6. mínútu stal Karitas Tómasdóttir boltanum af Þóru Jónsdóttur, komst í dauðafæri en skaut beint á Guðnýju Geirsdóttur í marki gestanna.

Agla María Albertsdóttir lét mikið til sín taka að venju.vísir/hulda margrét

Selfyssingar áttu ekki margar sóknir í fyrri hálfleik en voru samt nær því að skora. Á 18. mínútu hirti Eva Núra Abrahamsdóttir boltann af Telmu Ívarsdóttir, markverði Breiðabliks, sem braut á henni. Brenna Lovera tók vítaspyrnuna en Telma varði frá henni.

Leikurinn róaðist talsvert eftir þessa fjörugu byrjun. Á 42. mínútu fékk Selfoss aukaspyrnu fyrir utan vítateig. Barbára Sól Gísladóttir tók hana og skaut í slá. Agla María fékk svo fínt færi í uppbótartíma fyrri hálfleiks en skaut í Emmu Checker.

Seinni hálfleikur var afar rólegur og tíðindalítill framan af. Breiðablik var miklu meira með boltann en það var ekki sama púður í sóknarleik liðsins og í fyrri hálfleik. Agla María átti tvö skot sem Guðný varði en annað var það eiginlega ekki fyrr en á fjögurra mínútna kaflanum þegar öll mörkin komu.

Á 77. mínútu dró til tíðinda. Þóra Jónsdóttir fór þá í Karitas í teignum og Jóhann Gunnar Guðmundsson dæmdi víti. Agla María tók það og skoraði af öryggi.

Bergrós Ásgeirsdóttir skorar mark Selfyssinga.vísir/hulda margrét

Nánast í næstu sókn jafnaði Selfoss. Telma varði frá Bergrósu í dauðafæri en hún tók frákastið og skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild.

Tveimur mínútum síðar komst Breiðablik aftur yfir þegar Taylor skoraði með frábæru skoti í fjærhornið eftir að hafa fengið boltann eftir innkast. Mínútu seinna átti Agla María skot í slána.

Fleira markvert gerðist hins vegar ekki, Blikar lönduðu sigrinum og elta Valskonur áfram eins og skugginn.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar hafa margoft spilað betur en í dag náðu samt að kreista fram sigur. Breiddin í liði Breiðabliks er mikil og Vilhjálmur Kári Haraldsson er alltaf með góða kosti á bekknum. Og í dag var það varamaður sem tryggði Blikum stigin þrjú. Selfyssingar mega vera svekktir með úrslitin enda spiluðu þeir lengstum vel.

Tiffany McCarty í baráttu við sinn gamla liðsfélaga, Áslaugu Dóru Sigurbjörnsdóttur.vísir/hulda margrét

Hverjar stóðu upp úr?

Karitas átti afar góðan leik gegn sínu gamla liði og var kröftug á miðjunni. Agla María hefur spilað betur en var samt síógnandi og skoraði fyrra mark Blika. Hún er komin með níu mörk í sumar og er markahæst í Pepsi Max-deildinni ásamt Elínu Mettu Jensen hjá Val. Taylor átti svo góða innkomu og skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti.

Vörn Selfoss var mjög öflug í leiknum. Bergrós og Barbára Sól Gísladóttir fengu það erfiða verkefni að gæta Öglu Maríu og Áslaugar Mundu og gerðu það eins vel og hægt er. Bergrós skoraði auk þess mark Selfoss. Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Emma léku svo einkar vel í miðri vörn gestanna.

Selma Sól Magnúsdóttir fagnar í leikslok.vísir/hulda margrét

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Breiðabliks var óvenju hægur og fyrirsjáanlegur lengst af leiks og það var ekki sama fútt í honum og á undanförnum vikum. Brenna er svo væntanlega svekkt að hafa ekki nýtt vítið í fyrri hálfleik.

Hvað gerist næst?

Á miðvikudaginn fer Breiðablik til Akureyrar og mætir þar Þór/KA. Sama dag fær Selfoss Stjörnuna í heimsókn.

Vilhjálmur: Hefur verið rússíbani hjá okkur í allt sumar

Vilhjálmur Kári Haraldsson var glaður eftir leik.vísir/hulda margrét

Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks, var að vonum sáttur með sigurinn á Selfossi en viðurkenndi að frammistaða síns liðs hafi ekki verið í hæsta gæðaflokki.

Varamaðurinn Taylor Marie Ziemer skoraði sigurmark Blika þegar níu mínútur voru eftir en varamenn liðsins hafa verið drjúgir í sumar.

„Þetta hefur virkað fyrir okkur í síðustu leikjum, að vera með góða breidd. Varamennirnir koma grimmir inn á. Við höfum líka getað hvílt leikmenn á milli og haldið orkustiginu,“ sagði Vilhjálmur.

Fyrir utan upphafsmínútur fyrri hálfleiks gekk Selfyssingum vel upp í varnarleik sínum og Blika sköpuðu sér ekki mörg afgerandi færi.

„Þetta var ekkert sérstaklega góður leikur hjá okkur. Við höfum oft spilað betur en það var karakter í þessu. Við vorum að spila við gott lið og ég bjóst við jöfnum leik sem varð raunin,“ sagði Vilhjálmur.

„Jafntefli hefði kannski verið sanngjarnt. Þær spiluðu góðan leik og gerðu okkur erfitt fyrir. En við náðum að kreista fram sigurinn.“

Öll mörkin í leiknum komu á fjögurra mínútna kafla undir lokin. Blikar komust yfir, Selfyssingar jöfnuðu áður en Blikar skoruðu aftur.

„Þetta hefur verið rússíbani hjá okkur í allt sumar. Auðvitað vill maður hafa leikina öðruvísi en það var gott að vinna,“ sagði Vilhjálmur að lokum.

Alfreð: Það sýður á manni

Illa hefur gengið hjá Selfyssingum að undanförnu.vísir/hulda margrét

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, var súr og svekktur eftir tapið fyrir Breiðabliki.

„Þetta er blóðugt og það sýður á manni,“ sagði Alfreð í leikslok. Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti en eftir það gekk Selfyssingum vel að halda þeim í skefjum.

„Við fórum vel yfir þær og vitum hverjir styrkleikar og veikleikar þeirra eru. Við vorum vel skipulagðar og stelpurnar gerðu þetta mjög vel,“ sagði Alfreð.

„Það var smá einbeitingarleysi í öðru markinu sem við fengum á okkur. Við höfum áður fengið nákvæmlega eins mark á okkur gegn Breiðabliki. Innkast, sami maður fer inn á völlinn og skýtur með vinstri. Þetta var einbeitingarleysi en leikurinn var vel framkvæmdur hjá okkur. Það var bras á okkur í byrjun en eftir það var þetta stöðubarátta.“

Öll mörkin komu á fjögurra mínútna kafla í seinni hálfleik.

„Leikurinn opnaðist aðeins þegar 15-20 mínútur voru eftir. Þær áttu fullt af færum en þetta voru kannski færin sem við vildum að þær fengju. Þetta gekk ágætlega og þess vegna er hundfúlt að tapa þessu,“ sagði Alfreð.

Selfyssingar áttu ekki margar sóknir í fyrri hálfleik en fengu samt víti, sem fór forgörðum, og skutu í slá.

„Þú þarft að velja réttu augnablikin. Á móti Breiðabliki verðurðu að þora að halda boltanum. Þær nærast á því að vinna boltann fljótt aftur og vera með kantmennina sína framarlega. Við reyndum að leika okkur aðeins með boltann og það gekk ágætlega,“ sagði Alfreð.

Selfyssingar voru ekki alltof sáttir með vítið sem var dæmt á Þóru Jónsdóttur þegar hún fór í sinn gamla samherja, Karitas Tómasdóttur.

„Karitas hefur staðið af sér stærri tæklingar. Þetta var ekki einu sinni tækling. Ég ætla að vona að þetta sé ekki vatninu á Selfossi að kenna,“ sagði Alfreð að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira