Umfjöllun og viðtöl: Breiða­blik - ÍBV 7-2 | Markaflóð á Kópavogsvelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blikar skoruðu sjö í kvöld.
Blikar skoruðu sjö í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Breiðablik vann öruggan sigur á ÍBV, 7-2, þegar liðin áttust við á Kópavogsvelli í 11. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld. 

Heiðdís Lillýjardóttir og Hildur Antonsdóttir skoruðu tvö mörk hvor fyrir Breiðablik og Chloé Nicole Vande Velde, Selma Sól Magnúsdóttir og Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sitt markið hver. Þóra Björg Stefánsdóttir og Hanna Kallmaier skoruðu mörk ÍBV.

Eyjakonur unnu óvæntan sigur í fyrri leik liðanna en Blikar voru staðráðnir í að láta það ekki endurtaka sig og voru mun sterkari aðilinn í kvöld.

Heimakonur byrjuðu af miklum krafti og strax á 4. mínútu komust þær yfir með marki Heiðdísar eftir að Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving varði skot Kristínar Dísar Einarsdóttur eftir hornspyrnu Áslaugar Mundu. Fimm mínútum síðar slapp Agla María í gegn en Auður varði.

Agla María var aftur á ferðinni á 12. mínútu þegar hún sendi fyrir á Velde sem skoraði sitt fyrsta mark fyrir Breiðablik.

Á 20. mínútu minnkaði Þóra Björg muninn í 2-1 með marki úr vítaspyrnu. Hún kom eftir eina af örfáum sóknum ÍBV í fyrri hálfleik.

Þrátt fyrir þetta bakslag var Breiðablik miklu mun sterkari aðilinn og komst í 3-1 á 33. mínútu þegar Heiðdís skoraði sitt annað mark með skalla eftir hornspyrnu Áslaugar Mundu.

Blikar voru áfram miklu sterkari aðilinn og fengu góð færi til að bæta við mörkum. Áslaug Munda átti skot í slá og Auður varði frá Öglu Maríu og Birtu Georgsdóttur úr dauðafærum.

Mark ÍBV á 64. mínútu kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þóra Björg tók aukaspyrnu á hægri kantinum og smellti boltanum beint á kollinn á Hönnu sem skallaði í slá og inn.

Átta mínútum síðar náði Breiðablik aftur tveggja marka forskoti. Agla María sendi boltann þá inn fyrir vörn ÍBV á Hildi sem skoraði með föstu skoti á nærstöngina.

Blikar héldu áfram að sækja, Hafrún Rakel Halldórsdóttir átti skot í stöng á 78. mínútu og fimm mínútum síðar skoraði Selma Sól fimmta mark Breiðabliks eftir frábæra sókn og sendingu Hildar.

Blikar bættu svo tveimur mörkum við undir blálokin, fyrst skoraði Áslaug Munda eftir sendingu Öglu Maríu og svo gerði Hildur sitt annað mark og sjöunda mark Breiðabliks.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar voru mun sterkari aðilinn í leiknum og verðskulduðu sigurinn. Sóknarleikurinn var vel útfærður og árangursríkur og Breiðablik hefði hæglega getað skorað fleiri mörk.

Hverjar stóðu upp úr?

Heiðdís var sterk í vörninni og sýndi einnig góða takta í vítateig ÍBV og skoraði tvö mörk. Taylor Marie Ziemer átti einn sinn besta leik í Blikatreyjunni, var klók að finna sér svæði fyrir framan vörn Eyjakvenna og var ógnandi.

Agla María var mikið í boltanum, lagði upp þrjú mörk en fór illa með færin sín. Hornspyrnur Áslaugar Mundu skiluðu tveimur mörkum og Hildur og Selma Sól komu sterkar inn. Hildur skoraði tvö mörk og lagði upp eitt.

Auður hafði nóg að gera í marki ÍBV en varði nokkrum sinnum vel og gerði ágætlega í flestum af hornspyrnum Breiðabliks. Þóra Björg var besti útileikmaður Eyjakvenna; skoraði fyrra markið og lagði upp það síðara.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur ÍBV var ekki merkilegur, hvorki í föstum leikatriðum né opnum leik. Eyjakonum gekk sérstaklega illa að verjast kantspili Blika og hefðu hæglega getað fengið á sig fleiri en sjö mörk.

Meistararnir hljóta samt að hafa áhyggjur af því hversu mörg mörk þeir fá á sig. Eyjakonur áttu afar fáar sóknir en tókst samt að skora tvö mörk.

Hvað gerist næst?

Á laugardaginn á Breiðablik annan heimaleik, gegn Selfossi. Daginn eftir fær ÍBV Tindastól heimsókn.

Heiðdís: Keyrði mig bara í gang

Heiðdís Lillýjardóttir skoraði tvö mörk þegar Breiðablik sigraði ÍBV, 7-2, í kvöld.

„Þetta kom á endanum sem var mjög gott,“ sagði Heiðdís eftir leik. ÍBV minnkaði muninn í 3-2 á 64. mínútu en Breiðablik skoraði síðustu fjögur mörk leiksins.

Heiðdís, sem hafði aðeins skorað eitt mark í efstu deild fyrir leikinn í kvöld, gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk, bæði eftir hornspyrnur.

„Ég veit ekki hvað gekk svona vel, ég keyrði mig bara í gang,“ sagði Heiðdís sem var í tvígang nálægt því að skora þriðja markið sitt.

„Ég var orðin svolítið gráðug,“ sagði Heiðdís sem skoraði reyndar slatta fyrir Hött í næstefstu deild enda lék hún þá sem framherji.

„Ég hef smá bakgrunn í markaskorun,“ sagði Heiðdís. Með sigrinum komst Breiðablik á topp deildarinnar.

„Það er gott að fá smá sjálfstraust og hvatningu,“ sagði Heiðdís að lokum.

Jeffs: Gáfumst upp síðustu tíu mínúturnar sem er ekki gott

Ian Jeffs, þjálfara ÍBV, fannst tapið fyrir Breiðabliki helst til of stórt en sagði úrslitin sanngjörn.

„Kannski var þetta full stórt en Breiðablik átti skilið að vinna okkur í dag. Þær voru betri en 7-2 var aðeins of mikið,“ sagði Jeffs eftir leik.

„Við gáfumst upp síðustu tíu mínúturnar sem er ekki gott en ég var ánægður með margt.“

ÍBV minnkaði muninn í 3-2 á 64. mínútu en tókst ekki að fylgja því eftir.

„Við áttum mjög góðan kafla þá. Við minnkuðum muninn í 3-2 og næstu 5-7 mínútur komum við vel inn í leikinn. En svo tók Breiðablik aftur yfir og kláraði þetta vel,“ sagði Jeffs.

Breiðablik byrjaði leikinn af miklum krafti og var komið í 2-0 eftir tólf mínútur. Fyrra markið kom eftir hornspyrnu sem Jeffs var ósáttur við.

„Ég er mjög óánægður með fyrsta markið. Við vorum búin að fara vel yfir þetta á æfingasvæðinu, undirbúa okkur og sýna stelpunum hvaða svæði þær leita í. Þetta voru mikil vonbrigði,“ sagði Jeffs.

„Við þurfum að tala betur saman, leikmenn sem eru inni á, og skipuleggja sig betur.“

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.