Erlent

Heil­brigðis­ráð­herra Bret­lands smitaður af Co­vid

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, greindist smitaður af Covid-19 í morgun.
Sajid Javid, heilbrigðisráðherra Bretlands, greindist smitaður af Covid-19 í morgun. EPA-EFE/VICKIE FLORES

Sajid Javid, heilbrigðisráðherra, hefur greinst smitaður af kórónuveirunni. Javid greinir frá þessu í myndbandi sem hann birti á Twitter, þar sem hann segist vera með væg einkenni Covid-19.

„Ég greindist smitaður af Covid í morgun. Ég bíð eftir niðurstöðum úr PCR prófi en er þakklátur fyrir að vera bólusettur og að einkenni mín séu væg,“ skrifar Javid í tístinu.

Javid fékk niðurstöðuna eftir að hafa farið í einkennasýnatöku en hann hafði verið eitthvað slappur undanfarna daga. Hann er nú í einangrun á heimili sínu ásamt fjölskyldu sinni.

Javid hefur ekki sinnt starfi heilbrigðisráðherra lengi en hann var gerður að heilbrigðisráðherra í síðast mánuði eftir að forveri hans, Matt Hancock, sagði af sér í kjölfar þess að myndband, þar sem hann sést kyssa aðstoðarkonu sína Gina Coladangelo á skriftofu sinni, leit dagsins ljós. Í myndbandinu sést Hancock brjóta Covid-reglurnar sem hann setti sjálfur.

Í tístinu hvetur Javid alla sem hafa ekki verið bólusettir gegn Covid-19 til að grípa tækifærið og mæta í bólusetningu.

„Ég vil líka grípa þetta tækifæri og þakka öllum sem hafa tekið þátt í bólusetningarátakinu okkar, sem er sannarlega það besta af sinni gerð í öllum heiminum,“ segir Javid.

„Ef þú hefur enn ekki verið bólusettur skaltu flýta þér og fara í bólusetningu eins fljótt og þér er unnt. Og ef þú ert eins og ég, og þú ert smá slappur og telur þig hafa komist í návígi við einhvern smitaðan skaltu drífa þig í einkennasýnatöku.“

Í gær greindust 50 þúsund smitaðir af kórónuveirunni á Bretlandseyjum, en svo margir hafa ekki greinst á einum degi síðan í janúar. Það þýðir að einn af hverju 95 í Englandi eru smitaðir af veirunni þessa stundina.

Þrátt fyrir þetta munu afléttingar á takmörkunum taka gildi á mánudag en meira en þúsund heilbrigðisstarfsmenn og vísindamenn hafa gagnrýnt Boris Johnson forsætisráðherra fyrir þá ákvörðun. Þeir hafa kallað afléttingarnar „hættulega tilraun.“


Tengdar fréttir

Sajid Javid snýr aftur í bresku ríkis­stjórnina

Sajid Javid, fyrr­verandi fjár­­mála­ráð­herra og innan­­­ríkis­ráð­herra Bret­lands, verður næsti heil­brigðis­ráð­herra eftir að Matt Hancock sagði af sér því em­bætti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.