Enski boltinn

Markvörður Arsenal gerði kostuleg mistök í fyrsta leiknum með aðalliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arthur Okonkwo verður væntanlega þriðji markvörður Arsenal á næsta tímabili.
Arthur Okonkwo verður væntanlega þriðji markvörður Arsenal á næsta tímabili. getty/Stuart MacFarlane

Markvörðurinn Arthur Okonkwo gerði sig sekan um slæm mistök í sínum fyrsta leik fyrir aðallið Arsenal í gær. Skytturnar töpuðu þá fyrir Hibernian frá Skotlandi í æfingaleik.

Hinn nítján ára Okonkwo skrifaði undir þriggja ára samning við Arsenal í síðustu viku og í gær byrjaði hann fyrsta æfingaleik liðsins á undirbúningstímabilinu.

Frumraun Okonkwos með aðalliði Arsenal fór brösuglega af stað. Á 21. mínútu í leiknum í gær sendi Cédric Soares boltann til baka á Okonkwo. Sendingin var ekkert sérstök og boltinn skoppaði fyrir framan markvörðinn. Hann reyndi að hreinsa frá en hitti ekki boltann. Martin Boyle þakkaði pent fyrir sig og skoraði í autt markið eins og sjá má hér fyrir neðan.

Okonkwo lék fyrri hálfleikinn í gær en Karl Hein stóð á milli stanganna í þeim seinni. Hann kom engum vörnum við þegar Hibernian komst í 2-0 á 69. mínútu með marki Daniels Mackay.

Fjórum mínútum síðar fékk Arsenal vítaspyrnu en Nicolas Pépé brást bogalistin. Emile Smith Rowe minnkaði muninn í 2-1 á 82. mínútu en nær komust Skytturnar ekki.

Rúnar Alex Rúnarsson var ekki í leikmannahópi Arsenal í gær. Hann hefur verið orðaður við Altay Spor sem er nýliði í tyrknesku úrvalsdeildinni. Rúnar Alex lék fjóra leiki fyrir Arsenal á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×