Innlent

Fer fram á opinn nefndar­fund um Ás­mundar­salar­málið

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Vísir/Hanna

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþings, hefur lagt það til að nefndin taki fyrir nýlegan úrskurð nefndar um eftirlit með lögreglu sem snýr að Ásmundarsalarmálinu.

Í tilkynningu frá Jóni Þór kemur fram að Jón Þór telji að kanna þurfi hvort úrskurðurinn, sem lýtur að samtali tveggja lögreglumanna á Þorláksmessu, standist lög og reglur. Jón Þór telur fréttaflutning af málinu gefa fullt tilefni til þess að nefndin taki úrskurð nefndarinnar fyrir á opnum fundi.

Í tilkynningunni eru þá lagðar fram fjórar ástæður fyrir því að Jón Þór telur að taka eigi málið fyrir á opnum fundi:

1. Nefndin telur samtal lögreglumannanna ámælisvert, en ekki virðist hafa komið fram í fjölmiðlum nákvæmlega hvað það er við orð lögreglumanna sem sé ámælisvert. Ljóst er þó að þarna fer fram tveggja manna tal sem getur ekki haft áhrif á það mál sem upprunalega var tilkynnt um, þ.e. fréttatilkynningu frá lögreglu daginn eftir.

2. Komið hefur fram í fjölmiðlum að hvorugur lögreglumannanna kom nokkuð nálægt því að semja fréttatilkynninguna sem send var út að morgni aðfangadags og þetta samtal því ekki hluti af framkvæmd, starfsaðferðum eða verklagi lögreglu.

3. Samtal lögreglumannanna fer fram í einrúmi þar sem almenningur heyrir ekki til þeirra og því ljóst að ekki var kvartað til NEL vegna samtalsins. Það kemur einungis í ljós þegar myndbandsupptökur eru skoðaðar síðar.

4. NEL virðist ekki gera greinarmun á því að lögreglumenn hafi skoðanir og að þeir gæti fyllstu hlutlægni í störfum sínum, eins og kveðið er á um í 2. mgr. 13. gr. lögreglulaga. Verður þó með engu móti séð að þetta einkasamtal hafi haft áhrif á vettvangi, því ekki var kvartað yfir framkomu þessara tveggja lögreglumanna.

Það er mat Jóns Þórs að kanna þurfi hvort úrskurður nefndarinnar standist lögreglulög, lög um persónuvernd og verklagsreglur lögreglu um notkun búkmyndavéla. Þá telur hann mikilvægt að fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sé opinn, svo hægt sé að vitna í orð gesta. Það er í tilkynningunni sögð forsenda þess að eftirlitshlutverk Alþingis virki.


Tengdar fréttir

Segir fyrirspurn um afsökunarbeiðni lykta af pólitík

Formaður stjórnskipunar og eftirlitsnefndar segir fyrirspurn dómsmálaráðherra til lögreglustjóra um afsökunarbeiðni lykta af pólitík. Hann segir almenning eiga rétt á að vita um hvað fór á milli Áslaugar Örnu og Höllu Bergþóru á aðfangadag.

Telur mögu­legt að lög­regla hafi átt við fleiri upp­tökur

Nefnd um eftir­lit með lög­reglu skoðar nú hvort til­efni sé til að taka aftur upp fjögur mál eftir að í ljós kom að lög­reglan getur sjálf átt við upp­tökur búk­mynda­véla sinna. Skúli Þór Gunn­steins­son, for­maður nefndarinnar, vill ekki upp­lýsa um hvaða mál þetta séu á þessu stigi því nefndin hefur ekki enn tekið form­lega á­kvörðun um fram­haldið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×