„Þetta eru tvö mál þar sem upptaka hefst annars vegar í lok afskipta og hins vegar þegar handtaka er yfirstaðin,“ segir Skúli. „Síðan eru tvö mál þar sem hljóðið er annars vegar sagt bilað og hins vegar að gleymst hafi að kveikja á hljóði.“
Vissi ekki að lögreglan gæti átt við upptökur
Nefndin hefur eins og er engin úrræði til að sannreyna það hvort hljóð sé bilað í tækjunum eða ekki. „En þeir hafa þetta – þeir geta tekið hljóðið út greinilega.“
Skúli tekur það fram að nefndin sé ekki að væna lögregluna um neitt: „Og það getur vel verið að það sé allt í lagi með þessi mál. En það er bara dálítið erfitt fyrir nefndina að segja „heyrðu jú þetta verklag var bara allt í lagi“ þegar maður veit ekki hvort eitthvað annað hafi farið fram.“
Hann segist hafa trúað því, mögulega í einfeldni sinni, að lögreglan gæti ekki átt sjálf við upptökur úr búkmyndavélum sínum.
Annað kom hins vegar í ljós þegar nefndin fjallaði um störf lögreglunnar í Ásmundarsalarmálinu svokallaða. Hún fékk þá upptökur úr búkmyndavélum afhentar en þegar þær voru skoðaðar hafði samtal lögreglumanna, sem nefndin mat síðan ámælisvert, verið afmáð úr upptökunum.

„Það kom okkur mjög á óvart að lögreglan gæti átt svona við upptökurnar,“ segir Skúli. „Við héldum bara í okkar sakleysi að þær væru læstar. Af því þetta eru mikilvæg sönnunargögn.“
Hann segir þá að í langflestum tilvikum komi upptökur úr búkmyndavélum lögreglunni sjálfri til góða.
Staðfestir frásögn lögreglu
Hann segir að nefndin telji ekki að lögregla hafi verið að reyna að leyna gögnum í Ásmundarsalarmálinu og staðfestir það sem lögregla hefur sagt að nefndin hafi fengið skriftað samtal með upptökunum sem búið var að eiga við og á endanum réttu upptökurnar þegar óskað var eftir þeim.
Upprunalega útgáfan, þar sem búið var að afmá samtal lögreglumannanna, var sama útgáfa og réttargæslumenn fengu. Samtalið hafði verið afmáð vegna þess að lögregla taldi það ekki tengjast málinu beint.