Íslenski boltinn

Fylkir skoraði sjö á meðan KR var í stökustu vand­ræðum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fylkir skoraði sjö mörk í kvöld.
Fylkir skoraði sjö mörk í kvöld. Vísir/Hulda

Fylkir og KR fóru ólíkar leiðir í 16-liða úrslit Mjólkurbikars karla í knattspyrnu. Fylkir vann 4. deildarlið Úlfanna 7-0 á meðan KR lagði 2. deildarlið Kára 2-1 í Akraneshöllinni.

Leikur Fylkis og Úlfanna var ekki beint spennandi en Þórður Gunnar Hafþórsson kom Fylki yfir strax á 5. mínútu og þegar fyrri hálfleik var lokið hafði hann skorað þrjú og Birkir Eyþórsson eitt.

Þórður Gunnar bætti við fjórða marki sínu og fimmta marki Fylkis þegar klukkutími var liðinn. Djair Parfitt-Williams bætti við tveimur mörkum undir lok leiks og tryggði Fylki þægilegan 7-0 sigur.

Sömu sögu var ekki að segja af KR sem lenti undir í fyrri hálfleik gegn Kára. Staðan 1-0 í hálfleik og þannig var hún þangað til tuttugu mínútur lifðu leiks. Þá jafnaði Óskar Örn Hauksson metin eftir darraðardans í teig Káramanna eftir hornspyrnu.

Aðeins fjórum mínútum síðar skoraði Ægir Jarl Jónasson það sem reyndist sigurmark KR-inga og fóru þeir með torsóttan 2-1 sigur af hólmi.


Mjólkurbikarinn er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Mjólkurbikarinn er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×