Erlent

30 ára fangelsi fyrir að hafa svelt, pyntað og drepið þernuna sína

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Konan hafði misst fimmtán kíló á fjórtán mánuðum þegar hún lést.
Konan hafði misst fimmtán kíló á fjórtán mánuðum þegar hún lést. Getty

Kona frá Singapúr hefur verið dæmd í þrjátíu ára fangelsi fyrir að hafa svelt, pyntað og drepið mjanmarska þernu sína. Þernan vó aðeins 24 kíló þegar hún lést árið 2016.

Gaiyathiri Murugayan,40 ára eiginkona lögreglumanns í Singapúr, hefur játað að hafa borið ábyrgð á morðinu á Piang Ngaih Don. Þá hefur hún játað ýmsa ákæruliði til viðbótar. Saksóknarar hafa lýst gjörðum hennar sem „illum og ómannúðlegum.“

Dómari í málinu sagði í réttarhöldunum að málið væri eitt það versta sem hann hefði séð og að engin orð gætu lýst ofbeldinu sem unga konan þurfti að þola mánuðina fyrir dauða sinn.

Piang flutti til Singapúr um mitt ár 2015 en það var fyrsta skiptið sem hún vann erlendis. Stuttu eftir að hún hóf störf hjá Murugayan hófst ofbeldið gegn henni, eða í október 2015. Ofbeldið náðist oft á myndbandsupptökur en á heimilinu voru víða öryggismyndavélar. Samkvæmt myndbandsupptökunum beitti Murugayan Piang ofbeldi oft á dag.

Murugayan er meðal annars sögð hafa brennt Piang með straujárni og á myndbandsupptökunum mátti oft sjá hana kasta Piang um íbúðina „eins og tuskudúkku.“ Piang fékk oft aðeins brauð, sem búið var að bleyta í vatni, að borða eða hrísgrjón. Hún missti 15 kíló, eða 38 prósent líkamsþyngdar sinnar, á aðeins 14 mánuðum.

Piang var aðeins 24 ára þegar hún dó í júlí 2016. Fyrir dauða sinn höfðu Murugayan og móðir hennar veist að henni í marga klukkutíma. Samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings lést Piang af völdum súrefnisskorts til heila en þá höfðu mæðgurnar ítrekað kæft hana þennan dag.

Eiginmanni Murugayan hefur verið sagt upp störfum sem lögreglumaður og er hann ákærður fyrir aðild í málinu. Sömuleiðis er móðir Murugayan ákærð fyrir aðild að málinu.

Meira en 250 þúsund manns af erlendum uppruna vinna í Singapúr sem þjónustufólk. Flestir koma frá löndum eins og Indónesíu, Mjanmar og Filippseyjum. Ofbeldi gegn þjónustufólki í Singapúr er mjög algengt. Til að mynda var par dæmt árið 2017 fyrir að svelta þernu sína og árið 2018 var annað par dæmt fyrir að beita þernu sína frá Mjanmar ofbeldi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.