Enski boltinn

Man United hefur hafið við­ræður um fram­lengingu á samningi Pogba

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Samningur Paul Pogba við Manchester United rennur út næsta sumar.
Samningur Paul Pogba við Manchester United rennur út næsta sumar. EPA-EFE/Aleksandra Szmigiel

Samkvæmt heimildum Sky Sports hafa forráðamenn Manchester United hafið viðræður við Mino Raiola, umboðsmann franska miðjumannsins Paul Pogba, um að framlengja samning leikmannsins sem rennur út sumarið 2022.

Pogba gekk í raðir Manchester United á nýjan leik frá Juventus árið 2016. Gengi liðsins hefur verið upp og ofan síðan þá líkt og frammistöður Pogba. Hann átti einkar gott tímabil í vetur þrátt fyrir að Ole Gunnar Solskjær, þjálfari liðsins, hafi reglulega spilað honum út úr stöðu.

Pogba spilaði 42 leiki fyrir Man Utd í vetur, skoraði sex mörk og lagði upp níu til viðbótar.

Pogba hefur verið mikið á milli tannana á fólki en það virðist fara mikið í taugarnar á sumum hversu oft leikmaðurinn skiptir um hárgreiðslur og hversu lífsglaður hann er. 

Raiola er svo duglegur að hella olíu á eldinn með misgáfulegum ummælum þegar kemur að framtíð Pogba.

Undanfarið hefur hinn 28 ára gamli Pogba verið orðaður við Real Madrid en það var þegar Zinedine Zidane var enn þjálfari liðsins. Þá hefur hann verið orðaður við endurkomu til Juventus sem og París Saint-Germain.

Ef marka má fregnir ytra virðist samt sem Pogba vilji vera áfram í Manchester og ætli að hjálpa liðinu í baráttunni við nágranna sína í Manchester City um titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×