Erlent

800 handteknir og hald lagt á mörg tonn af eiturlyfjum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Frá aðgerðum.
Frá aðgerðum. Mynd/Australian Federal Police

Fyrirtækið ANOM, sem rekið var af bandarísku alríkislögreglunni og lögregluyfirvöldum í Ástralíu, þjónustaði um það bil 12 þúsund síma sem lögregla kom í dreifingu meðal glæpamanna til að hlera samskipti þeirra.

Á símunum var að finna spjallforrit sem fleiri en 300 glæpahópar í yfir 100 ríkjum notuðu til að skipuleggja starfsemi sína. Ítalska mafían og alþjóðlegir fíkniefnahringir voru meðal þeirra sem notuðu forritið.

Aðgerðin, sem bar yfirskriftina OTF Greenlight/Trojan Shield, gerði það að verkum að lögregluyfirvöld gátu fylgst með 27 milljónum skilaboða í rauntíma og gripið til viðeigandi aðgerða.

Samkvæmt Europol hefur meðal annars verið gerð leit á yfir 700 stöðum í tengslum við aðgerðina og fleiri en 800 verið handteknir. Lagt hefur verið hald á yfir 8 tonn af kókaíni, 22 tonn af kannabisefnum, 2 tonn af amfetamíni og metamfetamíni, 250 skotvopn, 55 lúxusfarartæki og 48 milljónir dala í peningum og rafmynt.

Farið verður í fleiri aðgerðir á næstunni á grundvelli upplýsinga sem safnað var með ANOM.

Lögregluyfirvöld í eftirfarandi ríkjum tóku þátt í aðgerðinni: Ástralía, Austurríki, Kanada, Danmörk, Eistland, Finnland, Þýskaland, Ungverjaland, Litháen, Nýja-Sjáland, Holland, Noregur, Svíþjóð, Bretland, Skotland, Bandaríkin.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×