Erlent

Bandaríkin ætla að gefa 80 milljónir skammta í júní

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna. AP/Evan Vucci

Ríkisstjórn Bandaríkjanna tilkynnti í dag að til stæði að gefa 80 milljónir skammta bóluefna til annarra ríkja í júní. Mest allt af því mun fara til COVAX-áætlunar Sameinuðu þjóðanna en hingað til hafa ríki þar sem þörfin er mikil fengið 76 milljónir skammta í gegnum áætlunina.

Af fyrsta skammtinum, sem verður um 25 milljónir skammta, munu um 19 milljónir fara í gegnum COVAX til Suður- og Mið-Ameríku, Asíu og Afríku. Bandaríkin munu þó að mestu leyti ráða hvert skammtarnir fara í gegnum COVAX.

Þessir 80 milljónir skammta samsvara um 75 prósentum af viðbótarskömmtum Bandaríkjanna en sá fjórðungur sem verður eftir, verður geymdur yfir neyðartilvik og í beinar gjafir til bandamanna Bandaríkjanna og annarra, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Er þar um að ræða ríki eins og Mexíkó, Kanada, Suður-Kóreu, Palestínu, Indlands, Úkraínu, Kósovó, Haítí, Georgíu, Egyptaland, Jórdaníu, Írak og Jemen. Einhverjir skammtanna munu þar að auki fara til starfsmanna Sameinuðu þjóðanna.

Þrýstingur á Biden hefur aukist

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu í dag að svo lengi sem faraldur nýju kórónuveirunnar geisaði einhversstaðar í heiminum væru stæðu Bandaríkjamenn frammi fyrir ógn. Þessar gjafir væru liður í því að binda enda á faraldurinn og Bandaríkin ætluðu að leggja jafn mikla áherslu á alþjóðlegar bólusetningar eins og gert hefði verið innan Bandaríkjanna.

Þó Bandaríkin muni að mestu ráða hvert skammtarnir fara sagði Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bidens, í dag að Bandaríkin væru ekki að skipta á bóluefnum og einhverskonar greiðum. Skömmtunum fylgdu engin skilyrði og eina markmiðið væri að hjálpa og binda enda á faraldurinn. Val ríkja myndi fara eftir ýmsum þáttum eins og þörf og fjölda bólusettra.

Þrýstingur á ríkisstjórn Bidens um að deila bóluefni ríkisins með umheiminum hefur aukist verulega undanfarna mánuði. Samhliða því hefur dregið úr alvarleika faraldursins sem er að versna víða annarsstaðar.

Washington Post segir meira en helming fullorðinna Bandaríkjamanna hafa fengið minnst einn skammt af bóluefni. Á heimsvísu er hlutfallið nær einum af hverjum tíu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×