Um­fjöllun og við­töl: Grinda­vík - Aftur­elding 0-2 | Mos­fellingar í 8-liða úr­slit

Valur Páll Eiríksson skrifar
Aftureldingastúlkur fagna.
Aftureldingastúlkur fagna. Lárus wöhler

Afturelding er komin í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta eftir 2-0 sigur á Grindavík suður með sjó í kvöld.

Liðin voru að mætast öðru sinni í sumar eftir að hafa gert 2-2 jafntefli í fyrstu umferð Lengjudeildarinnar. Síðan þá hefur Grindavík ekki unnið deildarleik en unnið einn í bikarnum. Afturelding aftur á móti unnið alla sína leiki.

Snemma varð þó ljóst að mörkin yrðu ekki mörg í kvöld. Mikill vindur í Grindavík hafði sitt að segja þar sem það tók leikmenn beggja liða tíma að fóta sig. Fjölmörg innköst voru tekin sömu megin vallar í upphafi, þar sem vindurinn hafði feykt honum ítrekað út af.

Bæði lið voru þétt fyrir, og einkenndist leikurinn þá fremur af baráttu og barningi, fremur en góðum spilköflum og marktækifærum. Guðrún Elísabet Björgvinsdóttir komst næst því að skora í fyrri hálfleiknum þegar skot hennar, sem var á leið upp í samskeytin á marki Grindavíkur, var varið í slá af Kelly O’Brien á 29. mínútu. Nær komust liðin ekki fyrir hlé og markalaust þegar hálfleiksflautið gall.

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri framan af en gestirnir voru líklegri aðilinn. Þeim tókst að brjóta ísinn á 69. mínútu þegar Ragna Guðrún Guðmundsdóttir lék á varnarmenn Grindavíkur og vann sig inn á teiginn frá hægri kantinum. Hún gaf boltann með jörðinni út í teiginn á Söru Lissy Chontosh, sem var ein á auðum sjó, og lagði boltann af yfirvegun í markið.

Afturelding var líklegri aðilinn til að bæta við marki eftir það fyrsta en Grindavík að jafna. Eftir að Grindavík hafði bjargað tvisvar á línu og tvö skot endað í markramma þeirra kom annað markið loks í uppbótartíma þegar Ragna Guðrún tók á rás og skaut föstu skoti frá vítateigslínunni upp í fjærhornið vinstra megin, óverjandi fyrir Kelly O’Brien sem varði oft á tíðum vel í kvöld.

Afturelding vann leikinn því 2-0 og er komið í 8-liða úrslit bikarsins.

Af hverju vann Afturelding?

Gestirnir höfðu einfaldlega meiri gæði í dag og unnu verðskuldaðan sigur í baráttuleik við strembnar aðstæður. Eftir að þær brutu ísinn 20 mínútum fyrir leikslok var aldrei spurning um það hvort liðið færi áfram.

Hverjar stóðu upp úr?

Ragna Guðrún Guðmundsdóttir var feykilega öflug í stöðu framliggjandi miðjumanns hjá Aftureldingu í kvöld. Varnarmenn Grindavíkur hrukku af henni á miðjunni ítrekað og hún var lykillinn að flestum sóknum gestanna.

Varnir beggja liða voru þéttar í leiknum en miðað við það hvernig leikurinn spilaðist, og aðstæðurnar sem veðurguðirnir buðu upp á, var erfitt fyrir leikmenn að sýna afgerandi góða frammistöðu. Það var helst Kelly O’Brien sem stóð upp úr í liði Grindavíkur þar sem hún varði oft á tíðum vel í rammanum.

Hvað fór illa?

Liði Grindavíkur gekk illa fram á við, sérstaklega í síðari hálfleik, þar sem liðið komst gott sem ekkert áleiðis þegar yfir miðjuna var komið.

Hvað er næst?

Afturelding er komin í 8-liða úrslit en Grindavík úr leik. Í ljós kemur klukkan 13:00 á morgun hvaða liði Mosfellingar mæta er dregið verður í næstu umferð.

Alexander: Ekki mikill fótboltaleikur

Alexander Aron vonast eftir að mæta einum af toppliðum landsins í 8-liða úrslitum.Afturelding.is

„Þetta er virkilega mikilvægt, og Grindavík gaf okkur hörkuleik. Fyrri hálfleikurinn var bara jafn og það verða ekki mörg lið sem koma hérna og taka stig í sumar.“ sagði Alexander Aron Davorsson, þjálfari Aftureldingar eftir leik. En hvað var það þá sem breyttist eftir hálfleikinn sem veitti Aftureldingu sigurinn?

„Við náðum meiri takti í leikinn, að láta boltann rúlla og færðum þær svolítið og náðum bara að venjast grasinu, það tók okkur góðar 40 mínútur að venjast því og koma okkur í ákjósanlegar stöður. Þær börðust mikið, hentu sér fyrir allt, þannig að þetta er bara mjög góð úrslit með það að gera, að landa svona sigri.“ segir Alexander.

Aðspurður um hvort seiglan hafi þá skilað þessu segir hann:

„Þetta var allavega ekki mikill fótboltaleikur sem við horfðum á í dag. Þetta var bara barátta og smá vindur en annars kom þetta niður á því hvort liðið vildi þetta meira og þetta datt með okkur í dag. Eins og ég segi á Grindavík mikið hrós skilið fyrir það hvernig þær lögðu sig fram í þennan leik.“

Alexander segist þá vilja máta sig gegn einhverjum af betri liðum landsins í 8-liða úrslitunum sem fram undan eru.

„Það er klisja, en ég vil heimaleik. Ég væri annars að sjálfsögðu til í að fá topplið, úr Pepsi Max-deildinni, til að mæla okkur við það, við verðugan andstæðing og sjá hvað við getum.“ segir Alexander.

Jón Ólafur: Lítið um fallega knattspyrnu

Jón Ólafur var sammála þjálfara Aftureldingar að fótboltinn sem sýndur var í kvöld hafi ekki verið sá besti.vísir/daníel

„Þetta eru vonbrigði, en þetta var svona týpískur leikur sem snerist um hver skoraði fyrsta markið, hann færi með sigur af hólmi. Því miður þá fengum það mark á okkur en náðum ekki að skora.“ Segir Jón Ólafur Daníelsson, þjálfari Grindavíkur, eftir tap kvöldsins. Hann var þá spurður, í því ljósi, hvort vonin hefði verið lítil eftir fyrsta markið.

„Nei, ég segi það nú ekki. En það er erfitt þegar maður þarf að opna sig, þá gefur maður fleiri færi á sig en þær voru skipulagðar og við áttum erfitt uppdráttar oft á tíðum.“

Aðspurður um hvað hefði vantað upp á segir Jón Ólafur:

„Ég held að það hafi verið mjög lítið um fallega knattspyrnu hérna í dag. Þetta var barátta, töluverður strekkingur og það fór lítið fyrir gæðum.“ sagði Jón og bætti við:

„Okkur vantaði bara að tengja saman miðju og sókn. Við vorum of ragar við að halda bolta og erum of mikið að sparka fram völlinn. Í staðinn fyrir að nota millimennina og færa okkur framar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira