Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Tindastóll 1-0 | Meistararnir mörðu nýliðana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir lagði upp eina mark leiksins.
Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir lagði upp eina mark leiksins. vísir/hulda margrét

Íslandsmeistarar Breiðabliks unnu torsóttan sigur á nýliðum Tindastóls, 1-0, þegar liðin áttust við á Kópavogsvelli í 4. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld.

Tiffany McCarty skoraði eina mark leiksins á 77. mínútu. Þetta var þriðji sigur Blika í jafn mörgum heimaleikjum í sumar. Þetta var hins vegar fyrsti útileikur Stólanna í efstu deild og fyrsta tap þeirra á þessu sviði. 

Frammistaða gestanna frá Sauðárkróki var samt að mörgu leyti mjög góð og það er hellingur í þetta lið spunnið eins og það hefur sýnt í öllum leikjum sínum til þessa í Pepsi Max-deildinni.

Eins og við mátti búast var Breiðablik miklu meira með boltann í leiknum og sótti stíft. Tindastóll fékk samt sennilega besta færi fyrri hálfleiks. Á 21. mínútu slapp Murielle Tiernan í gegnum vörn Breiðabliks en í stað þess að skjóta reyndi hún að gefa fyrir á Hugrúnu Pálsdóttur en sendingin var alltof föst.

Tvö bestu færi Blika í fyrri hálfleik féllu Tiffany í skaut. Á 19. mínútu skallaði hún yfir eftir frábæra fyrirgjöf Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur og á 36. mínútu skaut hún framhjá eftir fyrirgjöf Hildar Þóru Hákonardóttur. Heimakonur áttu slatta af öðrum tilraunum en ekkert sem olli vörn gestanna og Amber Michel í marki þeirra of miklu hugarangri. Staðan í hálfleik var markalaus.

Pressa Blika var ekki jafn stíf framan af seinni hálfleik og í þeim fyrri og Stólarnir héldu meisturunum nokkuð þægilega í skefjum.

Á 61. mínútu skallaði Tiffany boltann í netið eftir frábæra sendingu Kristínar Dísar Árnadóttur en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Pressa Breiðabliks jókst eftir því sem leið á seinni hálfleikinn. Á 74. mínútu reyndi Tiffany að lyfta boltanum yfir Amber en setti hann framhjá. Tveimur mínútum síðar skaut varamaðurinn Birta Georgsdóttir framhjá úr úrvalsfæri eftir undirbúning Öglu Maríu Albertsdóttur.

Á 77. mínútu kom svo eina mark leiksins. Áslaug Munda sendi fyrir frá vinstri á nærstöngina þar sem Tiffany var og stýrði boltanum í netið. Þetta var hennar þriðja mark í sumar.

Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks. Heimakonur héldu forystunni án vandræða og gestirnir áttu ekki orku eftir til að skora jöfnunarmark. Lokatölur 1-0, Breiðabliki í vil.

Af hverju vann Breiðablik?

Blikar hafa oft spilað betur en þeir gerðu í kvöld. Þeir héldu samt alltaf áfram og fundu á endanum leiðina í gegnum vörn Stólanna. Áslaug Munda var hættulegasti leikmaður Breiðabliks í leiknum og það var alltaf líklegt að hún kæmi að marki sem og raunin varð.

Hverjar stóðu upp úr?

Áslaug Munda var langbesti leikmaður Breiðabliks í leiknum, síógnandi, lagði upp nokkur færi og það sem mikilvægast er eina mark leiksins. Hafrún Rakel Halldórsdóttir lék vel í stöðu vinstri bakvarðar og er alltaf að verða betri. Þá átti Birta góða innkomu og hleypti nýju lífi í sóknarleik Blika.

Amber átti mjög góðan leik í marki Tindastóls, varði vel og var óhrædd að koma út í vítateiginn í fjölmörgum hornspyrnum Breiðabliks og slá boltann frá.

Vörn Stólanna var afar traust og allir fjórir varnarmennirnir spiluðu skínandi vel. María Dögg Jóhannesdóttir fékk það erfiða verkefni að dekka Öglu Maríu og gerði það með stakri prýði.

Hvað gekk illa?

Breiðablik náði ekki sama sóknarflugi og oft áður og miklu munaði um að Agla María fann sig ekki. Hún reyndi og reyndi en hlutirnir féllu ekki með henni í kvöld. Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir náði sér heldur ekki á strik og var tekin af velli um miðjan seinni hálfleik.

Murielle fékk úr litlu að moða í framlínu Tindastóls og á enn eftir að skora í Pepsi Max-deildinni. Hún hefði líklega átt að vera aðeins eigingjarnari og láta vaða þegar hún slapp í gegn í fyrri hálfleik.

Hvað gerist næst?

Næsta fimmtudag mætir Breiðablik Val á Hlíðarenda í stærsta leik sumarsins til þessa. Sama dag sækir Tindastóll Þór/KA heim í grannaslag. Sunnudaginn 31. maí mætast Breiðablik og Tindastóll svo aftur í sextán liða úrslitum Mjólkurbikarsins, þá á Sauðárkróki.

Kristín Dís: Skemmtilegt einvígi við Murielle

Kristín Dís Árnadóttir hafði gaman af því að berjast við Murielle Tiernan.vísir/hulda margrét

Kristín Dís Árnadóttir og stöllur hennar í Breiðabliki unnu torsóttan sigur á Tindastóli í kvöld.

„Þetta var þolinmæðisvinna. Við vorum með boltann 95 prósent af leiknum og sköpuðum okkur fullt af færum. Það vantaði upp á síðasta þriðjungnum en svo kom þetta loksins,“ sagði Kristín eftir leikinn.

Hún kvaðst ekki hafa verið farin að hafa áhyggjur eftir því sem leið á leikinn og Blikar ekki búnir að skora.

„Nei, við vissum að við myndum þurfa að halda áfram og þær myndu liggja til baka þannig að ég hafði svo sem engar áhyggjur,“ sagði Kristín en eina mark leiksins kom á 77. mínútu.

Hún bjóst við erfiðum leik eins og raunin varð. „Þær voru búnar að fá fjögur stig úr tveimur leikjum og koma upp í þessa deild með stemmingu,“ sagði Kristín.

Breiðablik hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir að hafa tapað í Vestmannaeyjum í 2. umferð.

„Við áttum ekki góðan dag í Eyjum en sýndum úr hverju við erum gerðar í síðasta leik og þannig á maður að koma til baka. Ég er mjög sátt hvernig við komum út úr þessu,“ sagði Kristín.

Hún og stöllur hennar í vörn Breiðabliks fengu það verðuga verkefni að gæta Murielle Tiernan sem hefur skorað grimmt fyrir Tindastóls undanfarin ár.

„Það var mjög gaman að eiga við hana. Hún er mjög sterk og þetta var mjög skemmtilegt einvígi,“ sagði Kristín að lokum.

Óskar Smári: Murielle tók rétta ákvörðun

Óskar Smári Haraldsson og Guðni Þór Einarsson stýra Tindastóli í sameiningu.vísir/sigurjón

Óskar Smári Haraldsson, annar þjálfara Tindastóls, kvaðst ánægður með frammistöðu síns liðs gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks í kvöld.

„Þetta er vissulega svekkjandi. Blikar hittu á góðan leik, þær voru mjög góðar í dag og réðum illa við þær á löngum köflum þar sem við vorum í miklum eltingarleik. Þetta er pínu fúlt en við erum stoltar af því að á 93. mínútu var Breiðablik að tefja. Það segir svolítið mikið um það hvað við gáfum í leikinn. Auðvitað er þetta súrt en ekkert til að dvelja yfir,“ sagði Óskar eftir leikinn.

Murielle Tiernan fékk besta færi Tindastóls á 21. mínútu. Hún slapp þá í gegnum vörn Breiðabliks en reyndi að gefa á Hugrúnu Pálsdóttur í stað þess að skjóta. Þótt það hafi ekki gengið var Óskar á því að Murielle hafi tekið rétta ákvörðun.

„Hugrún var í frábæru hlaupi og mér sýndist Jackie [Jacqueline Altschuld] líka vera þarna. Auðvitað gat hún slúttað sjálf enda frábær slúttari en þetta er það sem Murielle snýst um. Hún er mikill liðsfélagi og henni fannst annar leikmaður vera í betra færi og þess vegna sendi hún boltann. Það var rétt hjá henni en við vorum óheppnar að ná ekki að pota boltanum inn á því augnabliki,“ sagði Óskar.

„Þetta gerðist hratt en ég held að hún hafi tekið rétta ákvörðun. En það er auðvitað auðvelt að vera vitur eftir á.“

Blikar pressuðu stíft í fyrri hálfleik en Stólunum gekk betur að halda Íslandsmeisturunum í skefjum í upphafi þess seinni.

„Þær halda boltanum vel og reyna að færa hann hratt á milli kanta. Við vissum að við mættum ekki lenda mikið einn á einn gegn Áslaugu Mundu [Gunnlaugsdóttur] og Öglu Maríu [Albertsdóttur] því þær eru illviðráðanlegar í þeirri stöðu. Við reyndum að þétta utan á og sýna þeim inn á miðjuna en með því að spila boltanum hratt aftur inn á miðjuna ýttu þær okkur aftarlega,“ sagði Óskar.

„Í stórum kafla í fyrri hálfleik vorum við alltof aftarlega en í seinni hálfleik fórum við framar, nær þeim og í návígin og þá gekk þetta betur. Við gáfum meira pláss fyrir aftan okkur en við erum með Amber [Michel] sem er frábær og það er hraði í varnarlínunni okkar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira